Gríðarleg flóð í Mexíkó

3. nóv. 2007

Tabasco-fylki í Mexíkó er lamað eftir úrhellisrigningar. Samkvæmt upplýsingum yfirvalda er 80% af fylkinu undir vatni. Rauði krossinn í Mexíkó hefur kallað út 2.500 sjálfboðliða sem veita fyrstu hjálp, taka þátt í leit og björgun, dreifa nauðsynjum og meta þörfina á áframhaldandi hjálparstarfi.

Forgangsverkefni Rauða krossins eru að útvega mat, hreint vatn, veita húsaskjól og hreinlætisaðgerðir.  Nú þegar hafa níu þúsund fjölskyldur fengið matarpakka og fjögur þúsund einstaklingar verið fluttir í neyðarskýli sem opnuð eru eftir þörfum.

Alþjóða Rauði krossinn hefur sent Rauða krossinum í Mexíkó 200 þúsund svissneska franka úr neyðarsjóði sínum, sem Rauði kross Íslands er aðili að.