3 milljónir í neyðaraðstoð til Bangladess

19. nóv. 2007

Rauði kross Íslands sendi í dag þriggja milljóna króna framlag til neyðaraðstoðar í Bangladess vegna fellibyljarins Sidr sem gekk yfir landið á fimmtudag. Alþjóða Rauða krossinn kallaði í gær eftir 213 milljónum íslenskra króna til að aðstoða 235.000 manns á hamfarasvæðunum næstu níu mánuðina. 

Sjálfboðaliðar og starfsfólk Rauða hálfmánans í Bangladess hafa unnið sleitulaust að neyðaraðstoð frá því að hamfarirnar gengur yfir. Fjöldi látinna er nú talin rúmlega 3.000, en óttast er að enn fleiri hafi farist þar sem aðstoð hefur enn ekki borist á afskekktari svæði.

Yfir 200.000 manns leitaði skjóls í neyðarskýlum áður en fellibylurinn skall á landinu, og hefur það forðað enn frekara mannfalli. Um 42.000 sjálfboðaliðar Rauða hálfmánans taka þátt í neyðarvörnum landsins, meðal annars að koma fólki í neyðarskýlin í tæka tíð og dreifa nauðþurftum til fórnarlamba hamfaranna.

Þegar björgunarstörfum lýkur er mikilvægast að koma hreinu vatni til þeirra sem hafast við á flóðasvæðunum. Mengað drykkjarvatn getur haft alvarlegar afleiðingar á heilsufar íbúanna. Óttast er að fleiri kunni að farast þar sem þúsundir manna hafast enn við undir berum himni og hafa engan aðgang að matvælum, hreinu vatni eða lyfjum.

Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn munu á næstu vikum og mánuðum aðstoða um 47.000 fjölskyldur sem misst hafa heimili sín í flóðunum. Í upphafi verður lögð áhersla á að koma fólki í skjól, dreifa nauðþurftum og veita heilbrigðisþjónustu, en einnig verður hugað að uppbyggingu samhliða neyðaraðstoðinni.

Tíðni flóða og fellibylja í Asíu hefur aukist gífurlega síðustu ár, og telja margir sérfræðingar að loftslagsbreytingum sé þar um að kenna. Eins og í flestum hamförum verða þeir fátækustu jafnan harðast úti.

Rauði krossinn bendir á Söfnunarsímann 907 2020 fyrir þá sem vilja leggja fram framlög vegna hamfaranna í Bangladess. Við hvert símtal dragast frá 1.200 kr. sem greiðast með næsta símreikningi.