Sögulegur dagur í Mósambík

20. nóv. 2007

Heilsugæslustöð sem Rauði krossinn og Þróunarsamvinnustofnun Íslands reistu í sameiningu í Mósambík var formlega opnuð þann 30. október. Stöðin var afhent heilbrigðisyfirvöldum í Mósambík til rekstrar.

Heilsugæslustöðin, sem er í Chibucutso í Mapútóhéraði var rúmt ár í byggingu og kostaði sem svarar rúmum 12 milljónum íslenskra króna. Hún þjónar íbúum sjö þorpa á svæðinu þar sem búa alls um 8.000 manns (Chibucutso, Xikhobyane, Mpunguene, Djasse, Nwanane, Nhambe og Rybyene). Áður þurftu íbúarnir að fara rúmlega 20 km leið eftir læknisaðstoð til næsta þéttbýlis, eftir fáförnum vegum þar sem almenningssamgöngur eru mjög strjálar.

Á stöðinni er aðstaða til almennrar heilsugæslu og meðhöndlunar á algengustu sjúkdómum, fæðingarstofa, mæðra og ungbarnaeftirlit, bólusetningar, ráðgjöf um barneignir, og önnur fyrirbyggjandi heilbrigðisfræðsla.

Fulltrúar allra aðila sem komu að samvinnunni voru viðstaddir; Rauða kross Mósambík, Rauða kross Íslands og ÞSSÍ. Síðast en ekki síst fjölmenntu íbúar Chibúcútso til að fagna þessum tímamótum ásamt þorpshöfðingjum og embættismönnum í héraði. Samkvæmt venju hófst athöfnin með „kuphahla”. Þá eru andar framliðinna ákallaðir og beðnir um að blessa starfsemina sem fara mun fram í stöðinni.

Að því loknu klipptu þeir Marcelino Alexandre og Ómar Kristmundsson, formenn Rauða kross félaganna tveggja á borðann, ræður voru haldnar um mikilvægi þessarar uppbyggingar og boðið upp á ýmis skemmtiatriði. Að dagskrá lokinni var slegið upp mikilli veislu – og ku hafa verið fagnað fram á rauða nótt enda tilefni til.


Helstu heilsufarsvandamál á svæðinu eru malaría, niðurgangur, oft vegna skorts á hreinu drykkjarvatni, vannæring og alnæmi. Ungbarnadauði er mikill og margar kvennanna hafa gengið í gegnum erfiðar fæðingar – án mikillar aðstoðar.

Samstarf landsfélaga Rauða krossins í Mósambík og á Íslandi ásamt ÞSSÍ hófst í lok árs 1999 með fyrsta heilsugæsluverkefninu í Hindane í Mapútohéraði. Ákveðið var árið 2004 að halda samstarfinu áfram og hófst verkefnið í Chibúcútso árið 2005.

Verkefnið hefur gengið vel þrátt fyrir tafir vegna neyðarástands í landinu fyrr á árinu, vegna flóða og fellibylja. Rauði kross Mósambík framkvæmir verkið í samvinnu við heilbrigðisyfirvöld á staðnum, með aðstoð Rauða kross Íslands og fjárhagslegum stuðningi ÞSSÍ.

Með vígslu stöðvarinnar voru mörkuð ákveðin tímamót í verkefninu, þar sem hún hefur nú verið afhent heilbrigðisyfirvöldum til rekstrar. Þjálfun sjálfboðaliða, svo kallaðra heilsuliða sem fara í hús og fræða fólk um hvernig má verjast algengustu sjúkdómum og yfirsetukvenna er einnig að mestu lokið.

Nú tekur við uppbygging á vatnsöflun og hreinlætismálum í þorpunum sjö. Víða þarf að endurnýja eða lagfæra brunna og salernisaðstöðu þarf að bæta. Einnig taka nú þorpsnefndir Rauða krossins til við að byggja lítið hús þar sem verður aðstaða fyrir Rauða krossinn og nýtist þeim fyrir ýmsa þætti starfseminnar.

Rauði krossinn í Chibúcútso munu fylgja verkefninu eftir með aðstoð starfsmanna Rauða kross Mósambík og Rauða kross Íslands. Þau áttu stærstan þátt í að skipuleggja athöfnina og voru í sjöunda himni með áfangann.

„Hoje é um dia histórico” sögðu þau og brostu breitt, „þetta er sögulegur dagur,” enda fullvíst að opnun heilsugæslustöðvar með tilheyrandi þjónustu sjálfboðaliðanna og aðstoð Rauða krossins mun gera íbúum Chibúcútso lífið töluvert mikið léttbærara. 

Samstarfsaðilar þessa verkefnis hafa fullan hug á að skoða möguleika á fleiri samstarfsverkefnum af svipuðu tagi.

Mósambik er um 8x stærra en Ísland og þar búa um 20 milljónir – og um helmingur þjóðarinnar hefur enn ekki aðgang að viðunandi heilsugæslu. Víða er gríðarlega langt að fara til að fá lágmarksaðstoð og talið er að enn sé einungis einn læknir fyrir hverja 30,000 íbúa.