Saman í þágu mannúðar - Alþjóðaráðstefna Rauða krossins og ríkisstjórna 26.-30. nóvember

26. nóv. 2007

Alþjóðaráðstefna Rauða krossins og Rauða hálfmánans hófst í Genf í dag. Búist er við því að um 1.500 fulltrúar Rauða kross hreyfingarinnar og þjóðríkja sem eiga aðild að Genfarsamningunum taki þátt í  ráðstefnunni sem haldin er undir kjörorðunum „Saman í þágu mannúðar.”

Alþjóðaráðstefnan er haldin á fjögurra ára fresti. Eitt af meginmarkmiðum hennar nú er að fjalla um þann margslungna vanda sem steðjar að jarðarbúum á komandi áratugum. Meðal helstu umræðuefna má nefna stórfellda fólksflutninga milli landa og heimshluta, vaxandi glæpi og ofbeldi í borgum, sjúkdómsfaraldra, loftslagsbreytingar og annan umhverfisvanda. Á ráðstefnunni munu samstarfsaðilar ræða hvað þeir geti gert í sameiningu til að hjálpa bágstöddum samfélögum að takast á við framtíðina.

Þátttakendur munu fjalla um sérstöðu landsfélaga Rauða krossins hvað varðar samstarf þeirra við ríkisstjórnir í heimalöndum sínum. Landsfélög Rauða krossins munu einnig samþykkja sameiginleg áheit með ríkisstjórnum síns heimalands um samvinnu um mannúðarstarf 2008-2011 í samræmi við málaflokkana sem eru til umræðu að þessu sinni: loftslagsbreytingar; fólksflutninga, smitsjúkdóma og starf á átakasvæðum.

Hreyfing Rauða krossins og Rauða hálfmánans leggur höfuðáherslu á nauðsyn þess að eiga með sér náið samstarf til að mannúðaraðstoð berist tímanlega og skili tilætluðum árangri. Hreyfingin byggir að þessu leyti á víðtækri reynslu sinni sem stærsta mannúðarhreyfing heims. Rauði krossinn nýtur þeirra milljóna sjálfboðaliða og starfsmanna sem ætíð eru reiðubúnir til starfa um allan heim. Markmið alþjóðaráðstefnunnar er að byggja á þeim einstaka styrk sem hreyfingin býr yfir, efla alþjóðlegt samstarf enn frekar og fá fleiri aðila til liðs við hana.

Ekkert eitt samfélag, ríkisstjórn eða hreyfing getur tekist á við þá miklu erfiðleika sem steðja að íbúum veraldar án þess að eiga öflugt og gott samstarf við aðra sem vinna að sömu markmiðum. Ef þeir sem tengjast hreyfingu Rauða krossins og Rauða hálfmánans njóta þess stuðnings og hagræðis sem hlýst af víðtæku alþjóðlegu samstarfi verður árangurinn af baráttu þeirra mun meiri en samanlagður ávinningur af því sem þeir gera einir.