Sameinuðu þjóðirnar og Alþjóða Rauði krossinn: Öflug samvinna í þágu mannúðar

26. nóv. 2007

Í ræðu sinni á aðalfundi Alþjóða Rauða krossins fjallaði Dr Asha-Rose Migiro varaframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna sérstaklega um þá vaxandi samvinnu við Alþjóða Rauða krossinn sem stofnunin hefur notið á undanförnum árum. „Áframhaldandi samvinna okkar mun efla frekar bæði Sameinuðu þjóðirnar og Alþjóða Rauða krossinn,“ sagði hún. „Með því að finna hvar samstarfsaðilarnir standa best að vígi getum við bætt hvort öðru upp þá veikleika sem við kunnum að hafa.“

Dr Migiro fjallaði einnig um stuðning Sameinuðu þjóðanna við aðgerðir Alþjóða Rauða krossins í  Bangladess til aðstoðar fórnarlömbum fellibylsins, en í því verkefni hefur Alþjóða Rauði krossinn jafnframt notið samstarfs við Rauða hálfmánann í Bangladess og ríkisstjórn landsins.

„Bæði Alþjóða Rauði krossinn og Sameinuðu þjóðirnar eiga sameiginleg markmið sem birtast í lögum Rauða krossins og sáttmálum Sameinuðu þjóðanna,“ sagði hún. „Það sem hins vegar skiptir mestu máli eru störf okkar á vettvangi sem eiga það sameiginlegt að þau eru unnin í þágu þeirra sem minnst mega sín.“

Í máli Dr Migiro kom fram að Sameinuðu þjóðirnar leika mikilvægt hlutverk hvað varðar samhæfingu aðgerða á sviði þróunarmála í heiminum. Hún lagði jafnframt áherslu á það lykilhlutverk sem Alþjóða Rauði krossinn leikur í alþjóðlegu hjálpar- og þróunarstarfi. Þar nefndi hún sérstaklega málsvarastarf hreyfingarinnar, bólusetningarherferðir, uppbyggingu heilsugæslu og menntunar, baráttu gegn mismunun kynjanna og fyrir bættu matvælaöryggi.

Dr. Migiro telur að samvinna Alþjóða Rauða krossins og Sameinuðu þjóðanna hafi borið mestan árangur á sviði heilbrigðismála, sjálfboðins starfs og forvarna gegn hamförum. Hún leggur áherslu á mikilvægi þess að viðhalda þessari samvinnu og efla hana á komandi árum.

„Sjálfboðastörf snúast um að efla einstaklingana og samfélög þeirra. Það er gríðarlega mikilvægt að frumkvæðið komi frá grasrótinni,“ sagði Dr. Migiro og vísaði til þeirra milljóna sjálfboðaliða sem starfa með Rauða kross hreyfingunni um allan heim. Margir þeirra taka þátt í verkefnum sem njóta stuðnings frá Sameinuðu Þjóðunum.

„Alþjóða Rauði krossinn stendur jafnframt mjög framarlega í baráttunni fyrir bættri almennri heilsugæslu hvarvetna í heiminum, betri umönnun barna, forvörnum og meðferð við alnæmi, berklum, malaríu og fleiri sjúkdómum,“ sagði Dr. Migiro og tók fram að Alþjóða Rauði krossinn hafi verið eitt helsta aflið að baki áhrifaríkum herferðum gegn mislingum og malaríu í heiminum.

„Á sviði forvarna gegn áhrifum náttúruhamfara hefur Alþjóða Rauði krossinn unnið gríðarlega mikið starf,“ sagði Dr Migiro og lagði um leið áherslu á þann mikla árangur sem náðst hefur á því sviði. „Loftslagsbreytingar undanfarinna ára minna okkur jafnframt á þá vaxandi hættu sem hundruðum miljóna manna stafar af aukinni tíðni hamfara og nauðsyn þess að efla forvarnarstarf enn frekar með öflugri samvinnu þeirra sem fremst standa á því sviði.”