Þjóðríki gera lítið til að draga úr notkun klasasprengna

27. nóv. 2007

Alþjóða Rauði krossinn hefur lýst yfir vonbrigðum sínum með þau þjóðríki sem eiga aðild að alþjóðasáttmála um takmörkun hefðbundinna vopna, en fulltrúar aðildarríkjanna samþykktu að á næsta ári skuli lögð fram tillaga um aðgerðir til að bregðast við þeim vaxandi mannúðarvanda sem klasaprengjur valda.

„Við teljum að ekki sé nógu langt gengið með samþykkt þessari eða tekið á þeim áríðandi vanda sem klasasprengjur valda með fullnægjandi hætti,“ sagði Peter Herby hjá Alþjóða Rauða krossinum. „Það er vissulega jákvætt að aðildarríkin hafi reynt að hefja viðræður af þessu tagi, en því miður felur samkomulagið ekki í sér skuldbindingu um að banna eða takmarka notkun klasasprengna. Samþykktin nýtist ekki heldur til að hafa hemil á notkun þessara vopna sem þó valda mjög alvarlegum mannúðarvanda.“ Herby sagði jafnframt að í samkomulagi aðildarríkjanna væri viðræðum þeirra ekki sett nein tímamörk sem trúlega muni seinka því enn að viðhlítandi lausn fáist á þessu vandamáli.

Mannúðarvandinn sem stafar af klasasprengjum fer vaxandi ár frá ári og því verður sífellt brýnna að stöðva þessa þróun. Mjög stór hluti klasasprengna liggur að jafnaði ósprunginn á jörðinni eftir loftárásir og halda áfram að drepa og særa fólk jafnvel áratugum eftir að átökum lýkur. Alþjóða Rauði krossinn vinnur að því að draga úr hættunni sem óbreyttum borgurum stafar af mörgum tegundum hefðbundinna vopna og stefnt er að því að verulegar takmarkanir eða bann við notkun klasasprengna verði hluti af alþjóðlegum mannréttindalögum í náinni framtíð. Uns samkomulag næst um setningu slíkra laga hvetur Alþjóða Rauði krossinn öll þjóðríki til að hætta þegar í stað að nota klasasprengjur eða dreifa þeim til annarra og eyðileggja þær birgðir sem til eru af þeim.