Alþjóðlegi alnæmisdagurinn 1. desember: „Almenningur þarf að taka málin í sínar eigin hendur“

30. nóv. 2007

Í tilkynningu Alþjóða Rauða krossins á Alþjóðlega alnæmisdeginum er lögð á það höfuðáhersla að hjálpa samfélögum að taka frumkvæðið í baráttunni gegn alnæmi og ójafnri stöðu kynjanna.

Aljóðlegi alnæmisdagurinn árið 2007 verður haldinn hátíðlegur undir kjörorðinu ‚forysta‘. Þetta kjörorð vísar ekki aðeins til þess starfs sem ríkisstjórnir, heilbrigðisyfirvöld og félagasamtök eiga fyrir höndum í baráttunni gegn alnæmi heldur einnig til almennings í þeim samfélögum þar sem vandinn er mestur.

 „Nýjar tölur sýna að dregið hefur úr alnæmissmiti í mörgum löndum en þó er langt frá því að faraldurinn heyri sögunni til. Það er enn mjög mikilvægt að efla forvarnir og mjög varasamt að draga úr því starfi. Mestan árangur ber forvarnarstarfið ef grunneiningar samfélagsins taka sjálf á sig ábyrgð á þessum málum.“ segir Mukesh Kapila sérstakur fulltrúi Alþjóða Rauða krossins á sviði alnæmismála. „Það er jafnframt lykilatriði að jafna stöðu kynjanna og sannfæra almenning um nauðsyn þess að draga úr smithættu með breyttri hegðun og lífsviðhorfum. Tugir milljóna kvenna hafa því miður enga stjórn á því hvernig þær haga kynlífi sínu og þurfa að þola ofbeldi og misnotkun sem stofnar þeim í mikla hættu.“

Megináhersla Alþjóða Rauða krossins í baráttunni gegn alnæmi beinist að því að virkja grasrótarstarf innan samfélagsins og fá grunneiningar þess til fullrar þátttöku í starfi Rauða kross hreyfingarinnar. Það felst meðal annars í heimahjúkrunarverkefnum Rauða krossins og Rauða hálfmánans um allan heim. Þúsundir sjálfboðaliða vitja alnæmissjúkra og veita þeim aðhlynningu. Þeir sjá til þess að sjúklingar taki lyf sín með réttum hætti, veita ráðgjöf um hvernig draga megi úr smithættu og kenna sjúklingum um fæðuval, heilsu og hreinlæti. Þeir fylgjast með heilsu skjólstæðinga sinna og útvega þeim frekari læknisaðstoð ef á þarf að halda. Sjálfboðaliðar veita jafnframt fjölskyldum alnæmissjúkra sálrænan stuðning, því oft er mikið álag á fjölskyldum langveikra einstaklinga.

„Í löndum þar sem fólk hefur litlar tekjur er oft mjög mikill skortur á læknum og hjúkrunarfólki. Sjálfboðaliðar landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans eru því oft eina fólkið sem getur veitt samfélaginu aðstoð af þessu tagi,“ segir Bernard Gardiner, sem hefur yfirumsjón með alnæmisverkefnum Alþjóða Rauða krossins. „Sjálfboðaliðarnir eru hluti af samfélaginu sem þeir þjóna og búa oft á sömu stöðum. Af þeim sökum eiga sjálfboðaliðar jafnframt auðvelt með að takast á við hindranir sem felast í menningarlegum viðhorfum í samfélaginu. Það á sérstaklega við um kennslu  og ráðgjöf um forvarnir, en á því sviði þarf oft mikinn og jafnvel persónulegan skilning á hugarfari skjólstæðinga.“

Fyrir einu ári síðan stofnaði Alþjóða Rauði krossinn ný samtök gegn alnæmi (Global Alliance on HIV). Markmið samtakanna er að tvöfalda alnæmisstarf 50 landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans. Stefnt er að því að þetta markmið náist árið 2010 með því að efla grasrótarstarf félaga og sjálfboðaliða Rauða krossins og Rauða hálfmánans í samfélögum þar sem skjólstæðingar búa. Lögð er sérstök áhersla á að þetta aukna starf nái fyrst og fremst til þeirra sem minnst mega sín.

Hluti af átaki þessara nýstofnuðu samtaka felst í tveggja milljarða króna verkefni sem nær til tíu landa í sunnanverðri Afríku. Með þessu verkefni fá 50 milljónir manna fræðslu um forvarnir gegn alnæmi og leiðir til að draga úr mismunun kynjanna. Stefnt er að því að 250 þúsund alnæmissjúklingar fái aðstoð og að hlúð verði betur að 460.000 börnum sem þjást vegna alnæmisfaraldursins. Rauða kross hreyfingin vinnur einnig að því að efla alnæmisstarf í öðrum Afríkulöndum. Jafnframt verður starfið tvíeflt í  Asíu, Kyrrahafi, Karíbahafi, Suður- og Mið-Ameríku.