Alþjóða Rauði krossinn óskar eftir auknum framlögum fyrir Bangladess

28. nóv. 2007

Alþjóða Rauði krossinn hefur nú lagt fram nýja neyðarbeiðni fyrir Bangladess að upphæð tæplega 1,4 milljörðum íslenskra króna (24.500.000 CHF). Það fé sem safnast verður notað til að hjálpa 1,2 milljónum manna sem orðið hafa fórnarlömb fellibylsins Sidr. Rauði kross Íslands sendi þriggja milljóna króna framlag til neyðaraðstoðarinnar þann 19. nóvember.

Aðstoðin mun ná til níu af þeim héruðum landsins þar sem fellibylurinn olli mestu tjóni. Þar verður  fjölskyldum sem misst hafa heimili sín í hamförunum séð fyrir mat, húsaskjóli, heilbrigðisþjónustu, vatni og hreinlætisaðstöðu. Neyðaraðstoðinni er ætlað að koma til móts við mikilvægustu þarfir fórnarlambanna. Dreift verður byggingarefni, mat, fötum og fólkinu séð fyrir hreinu vatni og  heilbrigðisþjónustu.

Í neyðarbeiðninni er gert ráð fyrir ríflegum framlögum til uppbyggingar landsfélagsins og eflingu neyðarvarna. Mjög mikilvægt er að Rauði hálfmáninn í Bangladess fái tækifæri til að búa sig vel undir hamfarir í framtíðinni. Þær neyðarvarnir félagsins sem þegar voru til staðar þegar fellibylurinn Sidr gekk yfir landið hafa að öllum líkindum bjargað þúsundum mannslífa. Það er mikilvægt að þetta hlutverk félagsins fái aukinn stuðning í framtíðinni til að draga megi enn frekar úr afleiðingum hamfara af þessu tagi. Einnig er lögð mikil áhersla á að útvega fórnarlömbum fellibylsins húsnæði þar sem nærri hálf milljón heimila hefur eyðilagst. Fyrst og fremst er þar um að ræða bráðabirgðaskjól en einnig verður lögð áhersla á að koma fólkinu í varanleg húsakynni. Alþjóða Rauði krossinn er sú hjálparstofnun sem veitir mesta aðstoð af þessu tagi til fórnarlamba fellibylsins Sidr.

Nýjustu tölur benda til þess að Fellibylurinn Sidr hafi orðið hér um bil 3.000 manns að bana og að tæplega 35.000 manns hafi slasast. Rúmlega 1.700 manns er enn saknað. Aðrar opinberar tölur sýna að sex milljónir manna hafi orðið fyrir tjóni og að um það bil hálf milljón heimila í 30 héruðum hafi gjöreyðilagst. Fellibylurinn eyðilagði jafnframt mörg vatnsból og búfénaður drapst í þúsundatali. Uppskera hefur eyðilagst á um það bil einni og hálfri milljón ekra.

Hjálparstarf Alþjóða Rauða krossins í Bangladess  er þegar í fullum gangi og daglega berast meiri hjálpargögn til þeirra sem eiga um sárt að binda. Frá því óveðrið skall á hefur rúmlega 10.000 fjölskyldupökkum, 5.000 plastdúkum, 100.000 sótthreinsunartöflum og 20.000 matarpökkum verið dreift. Tugum þúsunda skammta af söltum til meðferðar við niðurgangi hefur einnig verið dreift, en skortur á hreinu vatni eykur tíðni sýkinga af því tagi. 18 hjúkrunarteymi frá Alþjóða Rauða krossinum ferðast um og veita slösuðum skyndihjálp og aðra  heilbrigðisþjónustu.

Rauði kross Íslands bendir á söfnunarsímann 907 2020 fyrir þá sem vilja leggja fram framlög vegna hamfaranna í Bangladess. Við hvert símtal dragast frá 1.200 kr. sem greiðast með næsta símreikningi.