Hlutlaus, óháð mannúðaraðstoð bjargar mannslífum

5. des. 2007

Brýn nauðsyn er á að skerpa línurnar milli mannúðarstarfs hlutlausra og óháðra samtaka eins og Rauða krossins og þeirrar aðstoðar sem ríki veita í pólitískum og hernaðarlegum tilgangi á átakasvæðum. Þetta var niðurstaða málstofu sem landsfélög Rauða krossins á Íslandi, Noregi, Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi stóðu fyrir á Alþjóðaráðstefnu Rauða kross hreyfingarinnar í Genf.

„Hlutlaus, óháð mannúðaraðstoð er líflínan fyrir starf Rauða hálfmánans í Afganistan.  Það traust sem við njótum fyrir að vera sjálfstæð og hlutlaus samtök verndar sjálfboðaliða okkar og gerir okkur kleift að aðstoða þá sem enginn annar nær til,“ sagði Fatima Gaillani, formaður afganska Rauða hálfmánans, sem deildi reynslu sinni með þátttakendum í málstofunni. 

Pierre Krähenbühl stjórnandi neyðaraðgerða hjá Alþjóða Rauða krossinum.
Gaillani sagði hlutleysi vera mikilvægasta tækið sem Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn hefðu á átakasvæðum. Hins vegar stofnuðu breyttar áherslur í hernaði, þar sem herlið tækju jafnt þátt í átökum og veittu aðstoð til íbúa, lífi starfsmanna óháðra mannúðarsamtaka í hættu.

„Það er mikil hætta á að óbreyttir borgarar ruglist í ríminu þegar herlið koma inn og veita slíka aðstoð, og eru kannski jafnframt þátttakendur í átökum. Þá eru skilin milli okkar og þeirra ekki lengur skýr í huga fólks. Þetta veldur því að hlutleysi Rauða krossins og Rauða hálfmánans er ekki virt, og sjálfboðaliðar okkar hafa verið drepnir vegna þessa,” sagði Gaillani.

Gaillani sagði einnig að því miður væru þeir til sem teldu að Rauði hálfmáninn í Afganistan tæki afstöðu í átökunum af því hann aðstoðaði alla jafnt burtséð frá búsetu eða stjórnmálaskoðunum. Margir ráðamenn skildu ekki hvernig hægt væri að vera hlutlaus ef samtökin veittu fólki á uppreisnarsvæðunum aðstoð. Með því væru Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn í raun einungis að sinna skyldum sínum.

Pierre Krähenbühl, stjórnandi neyðaraðgerða hjá Alþjóða Rauða krossinum, sagði nauðsynlegt að skilgreina betur hvaða hlutverkum herir annars vegar og mannúðarsamtök hins vegar gegndu á átakasvæðum. Þetta væri nauðsynlegt til að tryggja að aðstoð bærist þeim sem þurfa - eins og þeir eiga í raun rétt á samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum.

Kristján Sturluson framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands þakkar Fatimu fyrir framlag hennar á málstofunni.
„Herinn gegnir ákveðnu hlutverki við að veita aðstoð á neyðartímum. Hins vegar verða allir að gera sér grein fyrir að slík aðstoð er að sjálfsögðu veitt á hernaðarlegum og pólitískum forsendum. Það er nauðsynlegt að skilja þarna á milli og það verður einungis gert með samvinnu mannúðarsamtaka og ríkisstjórna, þar sem báðir aðilar virða mismunandi hlutverk hins,” sagði Krähenbühl.

Krähenbühl sagði að Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn væri hlutlaus mannúðarhreyfing sem hefði það eina hlutverk að veita vernd og  aðstoða þá sem mest þurfa á því að halda. Slík hreyfing væri best til þess fallin að veita hlutlausa óháða aðstoð. Með því að veita fjármagni til neyðaraðstoðar Rauða krossins og Rauða hálfmánans væri hægt að tryggja að fórnarlömb stríðs nytu hjálpar án tillits til uppruna þeirra eða pólitískra skoðana. Sem betur fer hefðu margar ríkisstjórnir skilning á því að það sé þörf fyrir sjálfstætt og hlutlaust mannúðarstarf  á átakasvæðum, og því fengi Alþjóða Rauði krossinn styrki án skilyrða til að sinna þessu starfi.