Rauði hálfmáninn í Alsír hjálpar fórnarlömbum sprengjuárásarinnar

12. des. 2007

Rauði hálfmáninn í Alsír tók strax virkan þátt í björgunarstörfum eftir að tvær sprengjur sprungu í miðborg Algeirsborgar í gær. Önnur sprengjan féll á skólabíl en hin við skrifstofu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna í Hydra hverfi þar sem skrifstofur sendiráða og fjármálaráðuneytið eru staðsett. Fréttir herma að um 26 manns hafi látist. Sprengingin olli miklum skemmdum á byggingu Flóttamannastofnunar og starfsfólk stofnunarinnar er meðal þeirra sem létust. Sprengingarnar eru taldar tengjast Al Kaída hryðjuverkamönnum.

Á annað hundrað sjálfboðaliðar Rauða hálfmánans frá nærliggjandi stöðum fóru á vettvang og hjálpuðu við leitar- og björgunaraðgerðir. Settar voru upp neyðarstöðvar þar sem veitt er skyndihjálp. Sjálfboðaliðar eru einnig til staðar á vettvangi og á sjúkrahúsum þar sem þeir sinna sálrænum stuðningi og flutningi á slösuðum með sjúkrabílum Rauða hálfmánans.