Mismunun í neyðarstarfi

13. des. 2007

Í dag verður árleg skýrsla Alþjóða Rauða krossins um hamfarir í heiminum kynnt á heimsvísu. Þetta er í fimmtánda sinn sem skýrslan kemur út, og er henni ætlað að skoða með gagnrýnum augum á hvernig tekist hefur til að veita neyðaraðstoð í kjölfar hamfara.

Sérstakt þema er tekið fyrir ár hvert, og í þetta sinn er tekin fyrir mismunun í neyðarstarfi. Þar er litið til þess hvaða hópar verða helst útundan í slíku starfi og hvers vegna, hvaða áhrif slík mismunun hefur og hvernig fórnarlömbin verða því berskjaldaðri fyrir afleiðingum hamfara.

Þeir hópar sem oftast verða útundan þegar neyðarástand ríkir og fá þar af leiðandi ekki viðeigandi aðstoð eru samkvæmt skýrslunni aldraðir, fólk sem á við fötlun að stríða, ýmsir minnihlutahópar, og svo konur. Þessir hópar eru oft á jaðri samfélagsins og eru því ekki inntir álits, sem veldur því að þarfir þeirra eru ekki teknar til greina þegar neyðaraðstoð er skipulögð. Oft er um að kenna stöðu þessara hópa innan eigin samfélags og fjölskyldu og þekkingarleysi mannúðarsamtaka sem bregðast við neyð.

Hamfaraskýrslan bendir á ýmsar leiðir til úrbóta svo að mannúðarsamtök geti bætt viðbrögð sín með því að taka tillit til þessara hópa – ekki aðeins á meðan á neyðarástandi stendur heldur einnig við skipulag neyðarvarna. Þannig þurfi að greina þarfir allra í neyðarvarnaráætlunum, og bregðast við þeim þegar hamfarir skella á – jafnt á björgunartímabilinu, við skipulagningu og dreifingu neyðaraðstoðar, og eins við uppbyggingu á hamfarasvæðum eftir að neyðarástandi er aflétt.

Mannúðarsamtök og stjórnvöld eru einnig kölluð til ábyrgðar um að sjá til þess að þarfir jaðarhópa séu greindar og að bregðast við mismunun sem er við lýði víðs vegar um heim. Slík mismunun á sér til að mynda stað vegna kynþáttar, kynferðis, trúarbragða, skoðana, stöðu, fjárhags eða tungumáls, og er oftast rótgróin í samfélagsmyndinni sem verður til þess að ákveðnir hópar fá ekki viðeigandi aðstoð.

„Það þarf að ræða opinskátt um þá mismunun sem á sér stað í neyðaraðstoð til að auka skilning á því hvernig er hægt að koma í veg fyrir hana,” segir Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri Rauða krossins. „Mannúðarsamtök sem veita neyðaraðstoð hvort sem það er vegna átaka eða náttúruhamfara verða að horfast í augu við að þetta gerist í okkar starfi, og berjast gegn því. Mismunun þrífst í skugganum og því þarf að varpa ljósi á þetta málefni svo hægt sé að bregðast við og uppræta hana í okkar starfi.”

Í skýrslunni eru tekin dæmi af neyðarstarfi víða um heim og leitast við að svara áleitnum spurningum - svo sem hvort neyðarvarnaráætlanir geri sérstaklega ráð fyrir fötluðu fólki sem ekki er fært að flýja hættur á eigin spýtur, hvort tekið sé mið af heilsufarslegum þörfum og getu aldraðra þegar neyðarviðbrögð eru skipulögð eða hvort gert sé ráð fyrir því að konur njóti sérstakrar verndar á neyðartímum þannig að þær verði ekki fyrir ofbeldi og misbeitingu.

Hægt er að lesa skýrsluna á vefsíðu Alþjóða Rauða krossins.