Rauði krossinn fordæmir morð á sjálfboðaliða í Sri Lanka

17. des. 2007

Landsfélög Rauði krossins og Rauði hálfmánans um allan heim fordæma morðið á sjálfboðaliða Rauða krossins í Sri Lanka þann 14. desember síðastliðinn.  Sooriyakanthy Thavarajah var sjálfboðaliði í deild Rauða krossins í Jaffna í norðurhluta landsins. Hann var numinn á brott af heimili sínu á föstudaginn var. Lík hans fannst í gær, sunnudag.  Ekki er vitað hverjir voru að verki.

Thavarajah hafði unnið fyrir Rauða krossinn í Sri Lanka í fjöldamörg ár. Árið 2005 hlaut hann sjálfboðaliðaviðurkenningu landsfélags síns fyrir óeigingjörn störf í þágu fórnarlamba flóðbylgjunnar miklu.
 
„Við erum harmi slegin vegna enn eins morðs á einum af sjálfboðaliðum okkar. Við sendum fjölskyldu hans og samstarfsmönnum okkar bestu samúðarkveðjur," sagði Jagath Abeysinghe, formaður Rauða krossins í Sri Lanka.
 
Rauða kross hreyfingin hefur krafist þess að stjórnvöld í Sri Lanka hefji þegar í stað rannsókn á morðinu á Thavarajah. Þetta er í annað sinn á þessu ári sem sjálfboðaliðar Rauða krossins hafa verið myrtir á óhugnanlegan hátt. Tveir sjálfboðaliðar Rauða krossins frá deild félagsins í Batticaloa, á austurströnd Sri Lanka, voru numdir á brott frá lestarstöð í höfuðborginni Colombo þann 1. júní á þessu ári. Lík beggja fundust nokkrum dögum síðar. Málið hefur enn ekki verið upplýst.
 
Rauða kross hreyfingin minnir alla þá sem eiga hlut að átökunum í Sri Lanka að virða alþjóðleg mannúðarlög og störf þeirra sem vinna fyrir mannúðarsamtök í landinu. Þrátt fyrir þessi óhugnanlegu morð hefur Rauði krossinn haldið ótrauður áfram að starfa í þágu fórnarlamba átaka og hamfaraflóðbylgjunnar sem reið yfir eyjuna fyrir þremur árum.