Árleg neyðarbeiðni Alþjóða Rauða krossins aldrei verið hærri

17. des. 2007

Alþjóðaráð Rauða krossins hefur gefið út neyðarbeiðni fyrir árið 2008 þar sem óskað er eftir rúmum milljarði svissneskra franka (um það bil 55 milljörðum íslenskra króna) til að fjármagna mannúðarstarf félagsins í 80 löndum.

„Vopnuð átök eiga sér stað um allan heim og það er mikilvægara en nokkru sinni að Alþjóðaráð Rauða krossins bregðist við þeim mannúðarvanda sem af því hlýst. Stundum skapast alvarlegt neyðarástand mjög skyndilega og þá þarf að taka á því tafarlaust. Víða ríkir einnig langvarandi mannúðarvandi af völdum ófriðar og þar er þörf fyrir hjálparstarf til lengri tíma,“ sagði Jakob Kellenberger formaður Alþjóðaráðsins þegar árleg neyðarbeiðni félagsins var birt styrktaraðilum í Genf. „Hlutleysi og sjálfstæði Alþjóða Rauða krossins gerir okkur mögulegt að ná til þeirra sem þurfa á vernd og hjálp að halda á átakasvæðum.“

Í fjárhagsáætlun Alþjóða Rauða krossins er gert ráð fyrir 932,6 milljónum svissneskra franka (tæplega 51 milljarði íslenskra króna) til að fjármagna aðgerðir í löndum þar sem neyðarástand ríkir. Áætlaður kostnaður við rekstur höfuðstöðva Alþjóðaráðsins í Genf nemur um 161,5 milljónum franka (tæplega níu milljörðum íslenskra króna). Fjárhagsáætlun Alþjóða Rauða krossins fyrir 2008 er sú hæsta sem mannúðarsamtökin hafa gefið út, meira en 89 milljónum franka (tæpum 5 milljörðum íslenskra króna) hærri en á síðasta ári.

„Ástæða þess að upphæðin er meiri en nokkru sinni fyrr er sú að með sjálfstæði sínu og hlutleysi hefur Alþjóða Rauði krossinn getað aukið starf sitt á átakasvæðum þar sem þörfin fyrir mannúðaraðstoð fer vaxandi,“ segir Kellenberger.

Írak er það svæði þar sem starf Alþjóðaráðs Rauði krossins verður mest árið 2008 og áætlað er að kostnaðurinn við hjálparstarf þar í landi nemi rúmlega 107 milljónum svissneskra franka (tæpum sex milljörðum íslenskra króna) á árinu. Þessi upphæð endurspeglar aukna áherslu hreyfingarinnar á læknisaðstoð og viðbrögð við versnandi mannúðarástandi þeirra hundruða þúsunda Íraka sem eru á flótta innan heimalands síns.

Hjálparstarf Alþjóðaráðsins verður einnig eflt í öðrum heimshlutum. Gert er ráð fyrir framlögum sem nema 106 milljónum svissneskra franka (tæpum sex milljörðum íslenskra króna) til hjálparstarfs í Súdan og búist er við því að kostnaður við hjálparstarf í Afganistan muni nema 60,3 milljónum svissneskra franka (tæplega þremur og hálfum milljarði íslenskra króna). Framlög til hjálparstarfs í Afganistan eru fjórðungi hærri en á fjárhagsáætlun ársins 2007.
Þó að víða sé erfitt að ná til skjólstæðinga og mörg önnur vandamál fylgi hjálparstarfi í Írak, Súdan og Afganistan, þá hefur hlutleysi og sjálfstæði Alþjóðaráðsins gert hjálparliði félagsins kleift að ná til fólks á svæðum sem fáar eða engar aðrar hjálparstofnanir hafa aðgang að.

Meginástæða þess að óskað er eftir auknum framlögum til neyðaraðstoðar Alþjóðaráðsins eru hörmuleg skilyrði þeirra sem þurft hafa að yfirgefa heimili sín á átakasvæðum en hafa þó ekki flúið úr landi. Milljónir óbreyttra borgara eru flóttamenn í heimalandi sínu sem veldur um leið versnandi lífsskilyrðum annarra íbúa. Alvarlegt ástand ríkir af völdum vaxandi ófriðar og ofbeldis í Kólumbíu, Kongó, Írak, Sómalíu, Srí Lanka og fleiri löndum þar sem Alþjóðaráðið starfar. 

„Þeim sem hlut eiga að vopnuðum átökum ber að gera allt sem í valdi þeirra stendur til að koma í veg fyrir að fólk þurfi að flýja af heimilum sínum. Besta leiðin til að ná slíkum markmiðum er að sjá til þess að farið sé eftir alþjóðlegum mannúðarlögum,“ sagði Kellenberger með vísan til þess mikilvæga starfs sem Alþjóðaráðið hefur unnið með útbreiðslu mannúðarlaga um allan heim. Aðstoð við fólk sem er á flótta innan landamæra heimaríkis síns er einn af meginþáttum hjálparstarfs um allan heim og mikilvægasta forgangsverkefni Alþjóða Rauða krossins.