Rauði krossinn bregst við loftslagsbreytingum

18. des. 2007

Rauði krossinn fagnar því að ríkari þjóðir heims skuli ætla að stofna sérstakan sjóð til að auðvelda þróunarríkjum að aðlagast lofslagsbreytingum. Stofnun sjóðsins var samþykkt á loftslagsþinginu í Balí nú um helgina.

Á Alþjóðaráðstefnu Rauða krossins í lok nóvember sem sótt var af 192 ríkisstjórnum og 186 landfélögum Rauða krossins og Rauða hálfmánans var skorað á þátttakendur í loftslagsþinginu í Balí um að auka aðstoð við fátækar þjóðir sem þurfa að takast á við æ fleiri náttúruhamfarir sem afleiðingar loftslagsbreytinga.

Á Alþjóðaráðstefnunni skuldbatt Rauði kross Íslands sig til að rannsaka áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi og taka tillit til niðurstaðnanna í neyðarvarnaráætlun félagsins. Rauði krossinn mun leita eftir samvinnu við stjórnvöld og viðeigandi stofnanir og samtök. Einnig hét Rauði kross Íslands því að vekja athygli stjórnvalda á áhrifum loftslagsbreytinga á fátækari ríki.

„Það er ljóst að loftslagsbreytingar munu hafa í för með sér öfgakennd veðurskilyrði og óreglulegt tíðarfar sem aftur mun leiða af sér fleiri náttúruhamfarir. Sem fyrr munu fátæk samfélög sem verða fyrir hörmungunum bera mestan skaðann,” segir Ómar H. Kristmundsson, formaður Rauða kross Íslands. „Það eru þeir sem minnst mega sín svo sem aldraðir, sjúkir og fátækir í fátækustu löndum heims stafar mesta hættan af loftlagsbreytingum.”

Rauði krossinn um allan heim gegnir mikilvægu hlutverki í neyðarviðbúnaði og neyðarviðbrögðum og hefur Alþjóða Rauði krossinn reynt að styðja sérstaklega við landsfélög sín í þróunarlöndunum til að efla neyðarvarnir þeirra. Það byggist meðal annars á að auka skilning íbúa þessara landa um loftlagsbreytingar og aðstoða landsfélög Rauða krossinn við að koma á fót verkefni til að aðlagast og draga úr áhrifum loftlagsbreytinga. Með áður nefndri rannsókn á loftslagsbreytingum mun Rauði kross Íslands leggja sinn skerf til eflingar neyðarvarna hér á landi.