Þjáningar almennings í Palestínu vaxa með degi hverjum

14. des. 2007

Lífsskilyrði íbúa á herteknu svæðunum í Palestínu hafa versnað mikið á undanförnum misserum vegna takmarkana á ferðafrelsi og vöruinnflutningi. Alþjóða Rauði krossinn hefur lýst yfir sérstökum áhyggjum vegna þeirra erfiðleika sem almenningur býr við af þessum sökum.

„Aðgerðir Ísraelsmanna hafa gríðarleg áhrif á lífskjör Palestínumanna. Almenningur hefur ekki nóg til að geta lifað af því sómasamlega," sagði Béatrice Mégevand Roggo sem hefur yfirumsjón með aðgerðum Alþjóða Rauða krossins í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku. „Þjáningar almennings fara stöðugt vaxandi vegna átaka milli Ísraelshers og stríðandi fylkinga Palestínumanna. Innbyrðis ófriður meðal Palestínumanna gera ástandið enn verra. Það er fyrst og fremst almenningur í Palestínu sem þjáist af þessum sökum."

Ástandið á Gasa er mjög alvarlegt og svæðið hefur verið lokað síðan í júní. Aðeins er leyfður innflutningur á brýnustu nauðsynjavöru og mikill eldsneytisskortur eykur mjög erfiðleika almennings. Heilbrigðiskerfi, vatnsveitur, frárennsli og aðrar mikilvægar stoðir samfélagsins eru í stöðugri hnignun. Íbúar á Vesturbakkanum búa við miklar hindranir á ferðafrelsi, en það hefur í för með sér bæði félagslega og efnahagslega örðugleika.

„Ísraelsmenn hafa rétt til að tryggja eigin öryggi, en þeim ber jafnframt að tryggja rétt Palestínumanna til að lifa eðlilegu og sómasamlegu lífi," sagði Mégevand Roggo. „Við núverandi kringumstæður er  mannúðaraðstoð ein og sér ekki nægileg. Aðstoðin getur ekki og á ekki að koma í staðinn fyrir pólitíska lausn."

Alþjóða Rauði krossinn mun eiga fund með helstu styrktaraðilum sínum í París eftir helgina. Stjórnmálaleiðtogar eru af því tilefni hvattir til að grípa tafarlaust til aðgerða sem bætt geti lífsskilyrði almennings á Gasa og Vesturbakkanum. Alþjóða Rauði krossinn minnir stjórnvöld í Ísrael á skuldbindingar þeirra samkvæmt alþjóðlegum mannréttindalögum. Farið er fram á að Ísraelsmenn aflétti ferðahömlum á almenning á herteknu svæðunum og láti af refsiaðgerðum sem koma niður á lífskjörum þeirra. Alþjóða Rauði krossinn hvetur jafnframt vopnaðar fylkingar Palestínumanna til að láta af árásum sínum á óbreytta borgara