Þrjú ár liðin frá flóðbylgjunni við Indlandshaf

26. des. 2007

Nú, þegar þrjú ár eru liðin frá flóðbylgjunni hrikalegu í Indlandshafi, hefur Alþjóða Rauði krossinn stutt þúsundir samfélaga við Bengalflóa í að taka mikilvæg skref á vegferð þeirra til bata.

Samkvæmt þriggja ára skýrslu Alþjóða Rauða krossins, þar sem teknar eru saman aðgerðir meira en þrjátíu landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans, hafa hjálpargögn og aðstoð við uppbyggingu náð til 3.873.000 manns í tíu löndum.

Aðstoð Rauða kross Íslands, sem fer að langmestu leyti í gegnum Alþjóða Rauða krossinn, heldur áfram í samstarfi við Rauða kross félögin á svæðinu. Heildarframlög Rauða kross Íslands til verkefna vegna flóðbylgjunnar námu samtals rúmlega 150 milljónum íslenskra króna.

Alþjóða Rauði krossinn gerir ráð fyrir að klára endurreisn að mestu í lok árs 2009. Hægt er að hlaða niður þriggja ára skýrslu Alþjóða Rauða krossins á slóðinni www.ifrc.org/tsunami