Flóttamenn í Kólumbíu búa við mikla örbirgð

3. jan. 2008

Alþjóða Rauði krossinn (ICRC) og Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (World Food Programme - WFP) hafa kynnt nýja rannsókn á kjörum þeirra milljóna manna sem þurft hafa að yfirgefa heimili sin í Kólumbíu en hafa ekki flúið út fyrir landamærin. Rannsóknin náði til átta borga í Kólumbíu og sýnir að flóttafólkið er í hópi þeirra sem búa við mesta örbirgð í landinu. 25-52% barna á heimilum flóttafólks fá færri en þrjár máltíðir á dag vegna þess að foreldrar þeirra eiga ekki fyrir nægum mat.

Í rannsókninni kemur fram hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar til að hjálpa flóttafólki á þeim stöðum þar sem það hefur helst sest að, en það er í borgunum Barranquilla, Bogota, Cartagena, Florencia, Medellin, Santa Marta, Sincelejo og Villavicencio. Flestar þær fjölskyldur sem neyðst hafa til að flýja heimili sín búa við mun meiri fátækt en heimamenn. Meirihluti flóttamanna er undir fátæktarmörkum (mánaðartekjur innan við 3200 ISK), sérstaklega í Medellin, Florencia, Baranquilla, Cartagena og Villavicencio.

Margar þeirra fjölskyldna sem hafa verið á flótta skemur en eitt ár fá mat, hreinlætisvörur og aðrar brýnar nauðsynjar frá hjálparstofnunum og hinu opinbera, en stór hluti flóttafólksins fær ekki þessa aðstoð þó að þörf þeirra sé brýn. Hjálparstofnanir og opinberir aðilar í Kólumbíu reyna eftir megni að sjá til þess að börn flóttafjölskyldna komist í skóla en mörg þeirra verða útundan og fá engin tækifæri til menntunar

Flóttafólkið hefur oft litla menntun og fá sómasamleg störf standa þeim til boða í þéttbýlinu. Til að bæta úr þessu leggja skýrsluhöfundar áherslu á mikilvægi tekjuöflunar- og starfsþjálfunarverkefna. Jafnframt er bent á að fólkið þurfi oft hjálp við að leita sér aðstoðar frá hinu opinbera og til að fá aðgang að heilbrigðisþjónustu. Í skýrslunni er lögð áhersla á ólíkar þarfir karla og kvenna og fólks af ólíkum uppruna sem og nauðsyn þess að meta þörf hinna mismunandi hópa fyrir sálræna aðstoð.

Alþjóða Rauði krossinn (ICRC) og Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) vonast til þess að stjórnvöld og hjálparstofnanir nýti sér tillögur skýrslunnar við uppbyggingu verkefna og gerð áætlana um hjálparstarf í þágu flóttafólksins. Mikil þörf er fyrir öflugri verkefni, bæði neyðaraðstoð til að fullnægja brýnustu þörfum og langtíma verkefni sem geta veitt  flóttafólkinu félagslegt og efnahagslegt öryggi til frambúðar.

Íslensk stjórnvöld í samvinnu við Rauða krossinn og Reykjavíkurborg hafa tvisvar sinnum tekið við hópum flóttafólks frá Kólumbíu. Fyrri hópurinn kom til Íslands um haustið 2005, og seinni hópurinn í október á þessu ári. Flóttafólkið kom hingað til lands frá Ekvador, en hafði flúið ofbeldi, stríðsátök og ofsóknir í heimalandi sínu Kólumbíu. Vegna sérstakra aðstæðna fólksins í Ekvador fór Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna fram á það við íslensk stjórnvöld að fólkinu yrði veitt hæli á Íslandi.