Ferðasaga frá Gambíu

Jóhönnu Róbertsdóttur svæðisfulltrúa Rauða krossins á Suðurlandi og Suðurnesjum

3. jan. 2008

Á vordögum fóru sjálfboðaliðar og starfsmenn frá deildum Rauða krossins á Suðurlandi og Suðurnesjum til Gambíu. Tilgangur ferðarinnar var að heimsækja Rauða kross deild í Lower River í Gambíu, kynnast starfsemi hennar og ræða fyrirhugað samstarf. Undirbúningur var mikill. Gerð var könnun á stöðu fólksins á svæði deildarinnar og niðurstöður bornar saman við samsvarandi könnun sem gerð var í Gambíu. Útbúið var kynningarefni vegna verkefna og starfsemi deildanna hér á landi, auk kynningarefnis um land og þjóð.
 
Flogið var snemma morguns til Frankfurt og þaðan til Banjul höfuðborgar Gambíu og lent um kl. 21:30 að staðartíma. Sjálfboðaliðar og starfsmenn Rauða kross Gambíu tóku á móti okkur á flugvellinum og keyrði okkur á gististað þar sem biðu okkur frekar illa lyktandi smáhýsi í heitu og röku kvöldloftinu. Allir voru þreyttir eftir langt og strangt ferðalag og því var farið beint í háttinn enda mikil dagskrá framundan.

Næsta dag vöknuðum við í sól og hita og vorum sótt af starfsmanni Rauða krossins til að fara í skipulagðar heimsóknir dagsins. Fyrst fórum við í aðalstöðvar gambíska Rauða krossins en skrifstofan er í húsi sem byggt var fyrir gjafafé frá Rauða krossinum á Norðurlöndum. Fundað var með starfsfólki og okkur kynnt verkefni og önnur starfsemi félagsins. 

Börn voru glaðleg og vildu gjarnan láta taka af sér myndir.
Við heimsóttum Brikama Branch, en það er Rauða kross deild sem er í vinadeildasamstarfi við deildir Rauða kross Íslands á Vesturlandi. Þeir eiga sitt eigið húsnæði sem er í frekar lélegu ástandi en unnið að viðgerðum. Rekstur deildarinnar og viðgerð á húsi er m.a. fjármagnaður með tekjum sem koma með útleigu á stólum, sölu á fatnaði og öðru, sem deildin hefur fengið sent í gámi frá Íslandi. Við heimsóttum einnig stað þar sem fatnaður og annað dót úr gámnum frá Íslandi var í geymslu og var gaman var að sjá hve vel og skipulega hafði verið staðið að flokkun og merkingum á sendingunni frá Vesturlandi. Formaður Brikama deildarinnar bauð síðan í mat í garðinum heima hjá sér, bragðgóð kryddgrjón, fisk og mangó. Heimamenn borðuðu með höndunum en gestunum boðið að nota hnífapör. 
 
Þennan dag fórum við líka í flóttamannabúðir í Foni og fylgdumst með matvæladreifingu. Mjög vel var að öllu staðið og svæðið sérlega snyrtilegt og vel skipulagt. Rauði krossinn var mjög sýnilegur á svæðinu, allir sjálfboðaliðar vel merktir og fáni félagsins blakti við hún. Greinilegt að Rauði krossinn nýtur bæði virðingar og trausts fólks. Í búðunum var flóttafólk frá Senegal sem komið hafði gangandi yfir landamærin úr suðri. Allir voru skráðir og báru skírteini þar sem fram kom m.a. fjölskyldustærð og úthlutað var í samræmi við það. Fólk fær úthlutað matvælum og annarri nauðsynjavöru einu sinni í mánuði og kvittar fyrir móttöku. Sjálfboðaliðar Rauða krossins, úr röðum heimamanna, taka þátt í dreifingunni svo minni hætta sé á að mistökum eða mismunun.

Hver fjölskyldumaður fær, óháð aldri, úthlutað hrísgrjónum, maísmjöli, baunum, hnetuolíu, salti, o.fl., ásamt sápustykki, moskitóneti og öðrum nauðsynjum. Fólk er ánægt með þessa þjónustu, en reynir þessu til viðbótar að bjarga sér um aðra hluti eftir því sem þarf. Fólk virtist vel á sig komið, var glaðlegt, hreint og snyrtilegt. Í búðunum var hópur Rauða kross sjálfboðaliða sem fræðir um eyðni og dreifir smokkum.

Næsta dag lögðum við snemma af stað áleiðis til Lower River svæðisins. Við ætluðum að ná fyrstu ferju yfir Gambíufljótið en urðum fyrir töfum vegna þess að forseti landsins hafði boðað komu sína og var ferjan því látin bíða eftir honum. Forsetinn lét hins vegar ekki sjá sig svo að endingu var ferjan látin fara af stað án hans, eftir um 2ja tíma bið. Siglingin yfir fljótið tók um 45 mínútur og þá áttum við eftir að keyra í nokkra klukkutíma á misgóðum vegum og fara aftur yfir fljótið, þar sem þrengra var, áður en komið var á áfangastað. Þegar við komum til Lower River beið okkar hópur sjálfboðaliða á veginum með fána og hljóðfæri. Þau sungu og dönsuðu og gengu svo með okkur í skrúðgöngu síðasta spottann, um 3ja km. leið að skrifstofu deildarinnar. Gleðin skein af öllum og greinilegt að heimsóknar okkar hafði verið beðið með mikilli eftirvæntingu. Fólkið hafið beðið í nokkra klukkutíma enda vissu þau ekkert um seinkun ferjunnar.

 

Fundurinn undir trénu.
Á móti okkur tók formaðurinn og starfsmaður deildarinnar ásamt stjórnarmönnum og sjálfboðaliðum sem kynntu dagskrána næstu daga. Síðan var farið í ýmsar heimsóknir og fundað með fulltrúa stjórnvalda, skólayfirvalda, heilbrigðisyfirvalda og svæðisstjóra.

Fundað var með stjórn og verkefnisstjórum deildarinnar á landskika deildarinnar sem var hálfgerð eyðimörk að sjá. Búið var að raða stólum í hring, í skugga undir stóru tré. Fundurinn var góður, hreinskilinn og málefnanlegur af beggja hálfu. Þeir sögðu frá starfsemi sinni og verkefnum og við kynntum Rauða krossinn á okkar svæði og þau verkefni sem deildirnar á Suðurlandi og Suðurnesjum vinna að. Rætt var um hvaða verkefni við ættum sameiginleg og hvað skildi okkur að og kom skýrt í ljós hve mörg verkefni Rauða krossins eru svipuð, hvar í heiminum sem er.

Þegar fundi lauk var myrkur skollið á. Ég hafði ekki orðið vör við að sól lækkaði á lofti, enda í skugga undir trénu en allt í einu tók ég eftir því að dýrin fóru að hópa sig saman eftir tegundum og gengu svo, hver tegund fyrir sig, í átt að náttstað. Það var ótrúlegt að upplifa náttúruna svona sterkt og finna einhvern veginn ekki hvar skil voru milli dýra merkurinnar og mannfólksins, enda trufluðum við sem þarna sátum og funduðum undir trénu, dýrin ekkert í þeirra ríki. Að upplifa Afríku með þessum hætti hafði slík áhrif að erfitt er að lýsa og mun Afríka alltaf eiga stað í hjarta mínu. 

Konur úr röðum sjálfboðaliða Rauða krossins reka saumastofu.
Deildin í Lower River hafði skipulagt ýmsar heimsóknir til að kynna okkur verkefni sem við gætum stutt við. Í því skyni heimsóttum við m.a. Sereh Sarjo, þar sem Rauði kross Íslands byggði brunn fyrir rúmum áratug. Nú er komið að því að dýpka brunninn, en hann er forsenda þess hve mikið og blómlegt samfélag er á svæðinu. Við heimsóttum einnig Nemakuta, en þar er öflugt starf Rauða kross kvenna sem reka saumastofu, vinna við batik, rækta garðlönd og fleira. Öflugur skóli er einnig á staðnum og var okkur kynnt starfsemi hans. Alls staðar var okkur tekið sem höfðingjum. Hópar merktra sjálfboðaliða og annarra þorpsbúa tóku á móti okkur með söng og trommuslætti og víða var slegið upp danssýningu í lokin.

Nú var komið að lokum heimsóknarinnar í Lower River og síðasti fundur okkar með deildinni haldinn. Þar var farið vel yfir þau verkefni sem við gætum komið að og ákveðið um framkvæmd og útfærslu þeirra. Einnig var rætt um framkvæmd samstarfsins, gagnkvæmar heimsóknir sjálfboðaliða, fréttabréf og fleira. Að lokum færðum við gestgjöfum okkar ýmsar gjafir sem sumar höfðu verið sérstaklega útbúnar fyrir þessa nýju vinadeild okkar í Gambíu.
 
Um kvöldið var kveðjuathöfn við húsnæði deildarinnar. Hópur sjálfboðaliða söng og dansaði ásamt því að leika og sýna skyndihjálp o.fl. Kveikt var bál og dansað í kringum það. Síðasti dansinn var þakkardans til okkar, dramatískur dans þar sem okkur var þakkað og síðan grátið á táknrænan hátt um leið og tekið var í hönd okkar. Ótrúleg upplifun, enn og aftur. Ég spjallaði lengi við 25 ára gamlan sjálfboðaliða. Hann er yngstur 3ja systkina og ólst upp hjá ömmu sinni og stórfjölskyldunni því móðir hans dó þegar hann var barn. Hann starfar sem hjúkrunarfræðingur á heilsugæslunni og dreymir um að læra einnig fæðingarhjálp, sem er 3ja ára nám í höfuðborginni Banjul.

Eftir kveðjur á gistiheimilinu snemma næsta morgunn var lagt af stað til Central River deildar fyrir norðan Gambíufljót. Sú deild hefur sýnt áhuga á vinadeildasamstarfi við Rauða krossinn á Íslandi. Á leiðinni þurfti að taka litlar ferjur milli staða. Þar var tæknin styttra á veg komin og þurfti að draga ferjuna á milli með handafli. Okkur voru kynntar aðstæður deildarinnar og tókum við jákvætt í að skoða vinadeildasamstarf. Að loknum fundi var borinn fram matur, kuskus með hnetusúpu að hætti heimamanna. Eftir matinn héldum við áfram áleiðis til Banjul en talið var að hiti væri um 45°C og því sveittir ferðalangar þar á ferð.

Þegar að Gambíuánni kom var löng biðröð í ferjuna og þurftum að bíða marga klukkutíma. Margt fólk beið ferjunnar og þegar kvölda tók fór að kula og var fólkinu kalt, sérstaklega börnunum. Loks komumst við um borð en svo þétt var bílum lagt að við gátum ekki opnað hurðina til að fara út. Við styttum okkur því stundir með því að syngja okkur og vonandi öðrum líka til mikillar ánægju. Það var þreyttur hópur sem kom á hótelið um miðnættið eftir langt og strangt ferðalag og enginn tók eftir því að ólykt eða hitamolla væri í herbergjum.

Jóhanna ásamt Mustapha Saine formanni Lower River deildarinnar undirrita viljayfirlýsingu um vinadeildasamstarf.
Síðasta dag okkar í Gambíu fórum við á skrifstofu Rauða krossins þar sem skrifað var undir viljayfirlýsingu um vinadeildasamstarfið. Um kvöldið var okkur boðið í mat heim til formanns gambíska Rauða krossins þar sem á borðum var fjölbreyttur og góður matur. Áttum við þar skemmtilegt kvöld í góðum félagsskap heimamanna og gesta þeirra. Þar með lauk formlega heimsókn okkar og við undirbjuggum heimferð.

Gambía, sem er eitt af fátækustu löndum heims, er minnsta land Afríku, 11.300 km2 að stærð, með um 1,7 milljónir íbúa. Landið var áður nýlenda Breta en fékk sjálfstæði árið 1965. Landið, sem er langt og mjótt, er umlukið Senegal, nema þar sem það hefur um 80 km strandlínu við Atlandshafið. Gambíuáin rennur eftir landinu miðju og fellur til sjávar við höfuðborgina Banjul. 
 
Í þorpum í dreifbýlinu búa flestir í litlum kofum þar sem engin þægindi er að finna og hvorki rafmagn né vatn. En þrátt fyrir þessa miklu fátækt er fólk jákvætt, á sína drauma og gleðst yfir litlu. Stuðningur deilda á Suðurlandi og Suðurnesjum mun sannarlega létta lífið hjá þessum vinum okkar en við getum líka lært margt af þeim sem styrkir okkur í starfi. Þegar þetta er skrifað eru þegar hafin nokkur samstarfsverkefni. Brunnurinn í Sereh Sarjo hefur þegar verið dýpkaður og ýmiss stuðningur við þjálfun sjálfboðaliða er hafinn.

Fljótlega á nýju ári mun gámur verða sendur frá Íslandi til deildarinnar í Lower River. Ýmislegt mun fara í þann gám, meðal annars reiðhjól, fatnaður, skór og fleira, sem safnað verður af sjálfboðaliðum deildanna á Suðurlandi og Suðurnesjum. Einnig verða sendir sérstakir fatapakkar fyrir ungabörn 0-1 árs sem sjálfboðaliðar eru að útbúa. Fatapakkarnir sem innihalda notaðan fatnað og aðrar nauðsynjar eru í framleiðslu hjá sjálfboðaliðum margra deilda. Þeir verða afhentir ungum fátækum mæðrum sem ekkert eiga í gegnum heilsugæsluna og Rauða krossinn. Ef fólk hefur áhuga á að styðja við þetta verkefni er hægt að hafa samband við deildir á hverjum stað eða undirritaða og fá upplýsingar um hvernig megi verða að liði.