Landsfélög Rauða krossins í sunnanverðri Afríku búa sig undir neyðarástand vegna flóða

14. jan. 2008

Rauði krossinn í Mósmbík hefur kallað út rúmlega 400 sjálfboðaliða til björgunarstarfa á flóðasvæðum í landinu og hefur að minnsta kosti 200 manns verið bjargað úr sjálfheldu af láglendi. „Við erum með birgðir og sjálfboðaliða í norðurhluta landsins sem við getum kallað út, en hins vegar skortir okkur mjög fjármagn til að geta haldið flutningum gangandi.“ segir Fernanda Teixeira, framkvæmdastjóri mósambíska Rauða krossins.

Önnur landsfélög í sunnanverðri Afríku og sendinefnd Alþjóða Rauða krossins í Jóhannesarborg eru nú í viðbragðsstöðu vegna mikillar hættu á flóðum. Búist er við því að flóðin valdi enn meira tjóni í mörgum Afríkuríkjum, fyrst og fremst í Svasílandi, Lesotó, Malaví, Mósambík, Sambíu og Simbabve.

Alþjóða Rauði krossinn mun einnig veita sem svarar um það bil 28 milljónum íslenskra króna (500.000 svissneskum frönkum) úr neyðarsjóði sínum til að styðja við aðgerðir landsfélaga í þeim löndum þar sem flóðin hafa valdið skaða. Fé var sent til neyðaraðstoðar í Simbabve í desember. Einnig hafa verið send samskiptatæki á borð við fartölvur, gervihnattasíma og VHF talstöðvar á svæðið en lítið er um önnur tæki til að takast á við hamfarirnar.

Mikil átök hafa átt sér stað í Kenýu í Austur-Afríku að undanförnu sem hefur valdið því að vaxandi flóð í sunnanverðri álfunni hafa ekki notið mikillar athygli í fjölmiðlum. Rauði krossinn brýnir hins vegar fyrir styrktaraðilum að beina sjónum sínum að þeim mannúðarvanda sem flóðin kunna að valda.
 
Óvenju miklar rigningar
Vatnsborð í ám er víða mjög hátt og sum landsvæði eru þegar komin undir vatn vegna þess hve mikið hefur rignt að undanförnu. Búast má við því að flóð verði meiri en vanalega vegna áhrifa frá hafstrauminum El Nina í Kyrrahafinu og loftslagsbreytinga í Afríku.

Í Mósambík er talið að 6 manns hafi þegar látið lífið vegna flóðanna og ríkisstjórn landsins hefur mikinn viðbúnað til að bregðast við væntanlegum hamförum. „Síðustu opinberar tölur gefa til kynna að allt að 60.000 manns hafi nú þegar orðið fyrir tjóni vegna flóðanna,“ segir Teixeira. „Við vitum enn mjög lítið um þær skemmdir sem orðið hafa á vegum og brúm. Um leið höfum við áhyggjur af matvælaskorti meðal fórnarlamba flóðanna.“

Samkvæmt fréttum BBC sjónvarpsstöðvarinnar hefur samtals 21 maður farist vegna flóða í Sambíu og Simbabve á undanförnum mánuði. Varað er sérstaklega við flóðum í Chipinge héraði í Simbabve en vitað er að heilt þorp hefur þegar skolast í burtu. 200 fjölskyldum var í kjölfarið úthlutað neyðargögnum af ýmsu tagi. Í Muzarabani héraði hefur veður farið batnandi, vatnsborð hefur lækkað og vegir eru færir. Í Tsholotsho hefur rignt mikið en ekki hafa átt sér stað flóð að svo komnu. Ekki var vitað um ástandið í öðrum hlutum Simbabve.

Fulltrúar mannúðarstofnana hafa lýst yfir miklum áhyggjur vegna þess hve ástandið hefur versnað mikið á regntímanum. Með áframhaldandi rigningum má búast við umtalsverðum flóðum í vetur.

Flóð geta valdið gríðarlegum skaða og manntjóni
Áður hafa átt sér stað gríðarleg flóð í Mósambík og öðrum löndum sunnanverðrar Afríku. Þessar hamfarir reyndu mjög mikið á neyðarvarnir og neyðarviðbrögð í álfunni. Rauði krossinn í Mósambík hefur þróað neyðarvarnir við flóðum frá því í hamförunum 2000-2001. Þær felast meðal annars í því að skilgreina undankomuleiðir og viðhalda viðvörunarkerfi sem byggist á tílkynningum í útvarpi og neyðarflautum.

Fyrir ári síðan urðu flóð í Mósambík 45 manns að bana og 250.000 manns misstu heimili sín. Fellibylurinn Favio hrakti önnur 140.000 af heimilum sínum. Þetta voru verstu flóð sem átt höfðu sér stað í Mósambík frá 2001 þegar um það bil 700 manns drukknuðu og mörg þúsund hröktust af heimilum sínum.

„Sumir segja að flóðin sem við glímum við núna séu jafnvel verri en árið 2001 ef litið er á vatnsmagn eingöngu,“ segir Teixeira. „Á hinn bóginn er almenningur mun betur í stakk búinn til að takast á við hamfarirnar og mun færra fólk verður fyrir skakkaföllum.“

Starf Rauða kross Íslands á svæðinu
Þrír starfsmenn Rauða kross Íslands eru nú að störfum í sunnanverðri Afríku. Það eru þær Nína Helgadóttir með aðsetur í Mósambík sem stýrir samvinnuverkefnum á sviði heilsugæslu og félagslegrar aðstoðar í Mósambík, Malaví og Suður-Afríku, Birna Halldórsdóttir sem starfar að verkefnum á sviði neyðarvarna og fæðuöflunar í Malaví og Huld Ingimarsdóttir sem stýrir fjármálum og breytingarferli á svæðisskrifstofu Alþjóða Rauða krossins í Simbabve. Auk þeirra stýrði Hólmfríður Garðarsdóttir hjálparstarfi Alþjóða Rauða krossins í Mósambík vegna flóðanna í fyrra.