Minni þróunaraðstoð – meiri þróunarsamvinnu!

Helgu Þórólfsdóttur sviðsstjóra alþjóðasviðs Rauða kross Íslands

15. jan. 2008

Flestir þekkja af eigin reynslu hversu vandasamt getur verið að hjálpa öðru fólki, hvort sem um er að ræða okkar nánustu eða aðra sem við teljum hjálpar þurfi. Við finnum fyrir mikilli ánægjutilfinningu þegar vel tekst til og hjálpin gleður og kemur að gagni. Að sama skapi er það dapurlegt þegar hjálpin snýst upp í andhverfu sína – þegar vandamálin aukast þrátt fyrir og stundum vegna þeirra afskipta sem áttu að verða til hjálpar. Þetta á einnig við um þróunaraðstoð - það er ekki nóg að vilja vel.

Undanfarið hafa verið líflegar umræður í fjölmiðlum um þróunarsamvinnu okkar Íslendinga, aðallega við fátækustu löndin í sunnanverðri Afríku. Eins og gengur hafa sumir, sem tekið hafa til máls, fundið þróunarsamvinnu allt til foráttu og lagt til að henni verði hætt. Aðrir hafa ekki tekið svo djúpt í árinni, heldur viljað breyta stefnunni og leggja t.d. mun ríkari áherslu á fræðslustarf. Í umræðunni hefur lítið borið á þeirri auðmýkt sem þarf að sýna gagnvart því viðfangsefni sem þróunarsamvinna er, og reyndar allt mannúðarstarf, hvort sem er hér heima eða í fjarlægum löndum.

Þróunarsamvinna er ekki eina leiðin til að bæta lífskjör fátækra, hún er aðeins ein leið af mörgum þar sem reynt er að jafna lífskjör þeirra sem líða vegna sárrar fátæktar og þeirra sem búa við ofgnótt. Ísland er eitt þeirra iðnríkja sem á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hafa skuldbundið sig til að verja 0,7 % af vergri þjóðarframleiðslu til þróunar- og mannúðarstarfs. Þess vegna er spurningin ekki hvort við Íslendingar tökum þátt í þróunar- og mannúðarstarfi heldur hvernig.

Ekki eru til neinar skyndilausnir á þeim flókna og langvinna vanda sem blasir við þeim fátækustu á jarðarkringlunni. Það getur verið freistandi að koma með tillögur að skyndilausnum sem oft stjórnast af þörf okkar til að láta gott af okkur leiða og því að árangurinn sé sýnilegur og mælanlegur. Góð þróunarsamvinna er tímafrek og byggir á gagnkvæmu trausti og skilningi á mismunandi þörfum, getu og aðstæðum þeirra sem vinna saman.  

Rauði krossinn á Íslandi og annars staðar í heiminum vinnur að verkefnum á sviði þróunarsamvinnu eða langtímasamvinnu eins og við kjósum að kalla hana. Samvinnan byggir á því að heimafólk sjái um framkvæmdaþáttinn, en í nánast öllum löndum heims eru starfandi Rauða kross félög.

Landsfélög Rauða krossins og Rauða hálfmánans um heim allan bygga á sameiginlegum grundvallarmarkmiðum, sameiginlegri stefnu og samábyrgð. Það þýðir að landsfélögin miðla hvert öðru af reynslu sinni og vinna saman að sömu markmiðum. 

Hlutverk Rauða kross Íslands í þróunarsamvinnu er að styðja önnur Rauða kross félög í  starfi þeirra rétt eins og við njótum góðs af samstarfi við önnur Rauða kross félög í okkar daglega starfi hér heima.

Rauða kross félög í fátækum löndum eru misjöfn og misöflug. Stundum finnst okkur hlutirnir gerast fullhægt og þá er freistandi að velta fyrir sér hverju duglegur starfsmaður frá Íslandi gæti komið í verk á stuttum tíma. Slíkt er hins vegar ekki þróunarsamvinna heldur þróunaraðstoð sem byggir á forsendum þess sem kemur til aðstoðar.

Í starfi mínu fyrir Rauða krossinn hef ég orðið vitni af því hvernig starf sjálfboðaliða og starfsmanna Rauða kross félaganna hefur skilað árangri. Ég hef séð hvernig félögin verða smám saman betur í stakk búin til að mæta þörfum þess fólks sem býr við erfiðustu  aðstæðurnar og hvernig félögin sinna fjölbreyttum verkefnum, m.a. á sviði neyðarvarna, heilbrigðis- og félagsþjónustu

Ég fyllist oft vonleysi þegar mér finnst ekkert ganga og samstarfið ekki skila neinu, en það gleymist þegar ég verð vitni að störfum sjálfboðaliða og starfsfólks sem vinnur mikið og óeigingjarnt starf við erfiðar aðstæður.  

Að mínu mati er þróunarsamvinna áhættufjárfesting sem þarf þolinmótt fjármagn, en þegar vel tekst til er ágóðinn betri en peningur á bók.  

Ég er þakklát fyrir að fá að fjárfesta í framtíð ungmenna sem voru fórnarlömb átaka í Síerra Leóne þegar ég heyri þau segja frá því hvernig þau hafa unnið úr lífsreynslu sinna og öðlast aftur trú á framtíðina eftir nám og endurhæfingu á vegum Rauða krossins.

Ég er einnig þakklát fyrir að fá að fjárfesta í ungum sjálfboðaliðum í Malaví sem kenna félögum sínum hvernig þeir geta varist því að smitast af alnæmisveirunni.

Ég fyllist hjálparleysi þegar ég hlusta á suma félaga mína sem starfa fyrir Rauða krossinn eða Rauða hálfmánann lýsa aðstæðum í löndum sínum. Þess vegna eru það forréttindi að geta komið að verkefnum þeirra, svo sem starfi með skólabörnum sem alast upp í Palestínu við aðstæður sem eru engum bjóðandi.

Það er ekki hægt að fullyrða um gagnsemi eða gagnsleysi þróunarsamvinnu. Það er þörf á að rannsaka betur samspil þeirra sem vinna saman í þróunarsamvinnu, þar sem athyglinni yrði beint að þeim sem koma færandi hendi. Það gæti að mínu mati minnkað forsjárhyggju í þróunar- og mannúðarstarfi, sem oft byggist á ofmati á gæsku, visku og verðleikum okkar sem erum utanaðkomandi.

Við eigum að biðja um meiri og betri þróunarsamvinnu og minni þróunaraðstoð.
 
Helga Þórólfsdóttir sviðsstjóri alþjóðasviðs Rauða kross Íslands hefur búið og starfað fyrir Rauða krossinn í Sómalíu, Líberíu, Georgíu, Bosníu, Tajikistan, Uganda og á Indlandi.