Palestínumönnum neitað um mannsæmandi líf

18. jan. 2008

Á herteknu svæðunum í Palestínu, bæði á Vesturbakkanum og á Gasaströndinni, einkennist daglegt líf Palestínumanna af erfiðleikum og niðurlægingu. Þeir hafa ekki frelsi til atvinnu og annarra athafna sem ættu að vera sjálfsagður og óaðskiljanlegur hluti af lífi allra einstaklinga. Þetta kemur fram í nýútkominni skýrslu frá Alþjóða Rauða krossinum.

Hernám
Á herteknu svæðunum í Palestínu, bæði á Vesturbakkanum og á Gasaströndinni, einkennist daglegt líf Palestínumanna af erfiðleikum og niðurlægingu. Þeir hafa ekki frelsi til að sinna atvinnu sinni og öðru því sem ætti að vera sjálfsagður og óaðskiljanlegur hluti af lífi allra einstaklinga. Gríðarlegur vandi ríkir á herteknu svæðunum, þar sem milljónum manna er á hverjum degi neitað um réttinn til að lifa mannsæmandi lífi.

Það er mjög erfitt fyrir Palestínumenn að skipuleggja daglegt líf, því að oft er útilokað að sjá fyrir þær aðstæður sem skapast kunna á hverjum degi. Oft breytir hersetuliðið reglum dag frá degi án fyrirvara eða skýringa. Palestínumenn hafa ekkert vald yfir lífi sínu og þurfa að laga sig að sífellt meiri takmörkunum á öllum sviðum daglegs lífs án þess að ráða neinu um þróun mála.

Sem Palestínumenn þurfum við að búa við takmarkanir á öllum sviðum. Hermenn stöðva okkur hvert sem við förum. Við fáum ekki að ferðast óhindrað, missum vinnuna og þurfum að vera fjarri fjölskyldum okkar. Palestínumenn hafa misst margt af því sem er eðlilegur hluti af lífi flestra annarra.“ - Mohammed, íbúi í Jerúsalem

Árið 2006 skipti landamæragirðingin þorpinu Abu Dis á Vesturbakkanum í tvo hluta. Í Abu Dis búa um 30.000 manns. Girðingin skilur  fjölskyldur af og heldur bændum frá landi sínu. Abu Dis stendur við veginn milli Austur-Jerúsalem og Jeríkó en eftir að honum var lokað hefur helmingi allra fyrirtækja við veginn verið lokað.
Starfsfólk Alþjóða Rauða krossins fer fótgangandi framhjá vegartálma til að flytja særðan óbreyttan borgara af Gasaströndinni yfir landamærin til Ísraels þar sem sjúkrabíll bíður. Júlí 2007.
Kona leitar að eigum sínum í rústunum af húsinu sínu. Það var eyðilagt í hernaðaraðgerðum á Gasaströndinni í September 2007.
Fimm manns létu lífið og 250 heimili eyðilögðust þegar stífla brast í Beit Lahia á Gasaströndinni.
Palestínskur bóndi á Vesturbakkanum bíður við hlið á landamærunum til að komast í ólífulundinn sinn hinu megin við girðinguna á svæði landnemabyggðarinnar Ariel.
Ólífutré sem landnemar hjuggu niður í Wadi al Hussein / Hebron árið 2005.
Gömul kona frá Budrus í Ramallah héraði bíður þess að hliðið verði opnað svo að hún geti hirt um ólífulundinn sinn. Hún missti nær öll trén í eldi því að henni var ekki hleypt nógu oft í gegn til að hún gæti hreinsað burtu sinu. Hún og fjölskylda hennar höfðu mest allar tekjur sínar af ólífurækt.
Palestínsk fjölskylda fer um Huwara hliðið sem er annað af tveimur hliðum á veginum sem tengir Nablus við aðra hluta Vesturbakkans. Einkabifreiðar mega ekki fara framhjá vegartálmanum við Huwara nema eigendur þeirra  hafi fengið sérstakt leyfi.
 
 Palestínumenn bíða við Huwara vegatálmann.
Í herkví á Gasaströndinni
Þegar lokað er fyrir umferð inn á Gasaströndina og útaf henni halda bardagar uppreisnarmanna við Ísrael linnulaust áfram. Palestínumenn skjóta flugskeytum á ísraelska bæi á hverjum degi. Ísraelski herinn sendir reglulega herlið inn á Gasaströndina og gerir árásir bæði úr lofti og af sjó. Almenningur í Palestínu þarf einnig að þola afleiðingarnar af innbyrðis bardögum palestínska uppreisnarmanna.

Frá því að Hamas náði völdum á Gasa í júní og hörð átök hófust milli palestínsku samtakanna Hamas og Fatah hafa landamærin verið nær algerlega lokuð almenningi. Íbúar geta ekki sótt skóla eða leitað sér læknisaðstoðar á Vesturbakkanum, í Austur-Jerúsalem, Ísrael eða erlendis. Aðeins eru gerðar undantekningar ef flutningar er nauðsynlegur til að bjarga mannslífum. Jafnvel í slíkum tilvikum fá sjúklingar stundum ekki leyfi til að fara yfir landamærin.

Frá því að ísraelski herinn yfirgaf Gasaströndina árið 2005 hefur öryggissvæðið meðfram landamærunum verið breikkað mikið á kostnað palestínskra landeigenda. Gasaströndin er eitt af þéttbýlustu svæðum heims en íbúar hennar missa sífellt meiri landbúnaðarsvæði undir öryggissvæðið. Því fólki sem býr meðfram landamærunum stafar hætta af aðgerðum hermanna og margir almennir borgarar hafa látið lífið, særst eða verið handteknir fyrir það að fara of nálægt.

„Jafnvel eftir að herinn fór fáum við ekki að vera í friði. Þeir koma hingað endrum og eins, eyðileggja trágarða okkar og hús. Öryggissvæðið er ómerkt og við vitum ekki hvar það byrjar fyrr en þeir fara að skjóta.“ - Saleh, bóndi á Gasaströndinni

Nóg til að halda lífi en ekki til að lifa því
Viðskiptahindranir valda því að æ fleiri vörur hverfa úr hillum matvöruverslana og íbúar Gasa hafa sífellt meiri áhyggjur af framtíðinni. Verðlag hefur hækkað gríðarlega og nær enginn hefur efni á þeim fáu vörum sem komast inn í landið. Kjúklingur og margar aðrar tegundir matvæla hafa meira en tvöfaldast í verði á undanförnum fjórum mánuðum.

Samkvæmt Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (World Food Programme, WFP) hafa um 80.000 manns misst atvinnu sína á Gasaströndinni frá því í júní á þessu ári og atvinnuleysi er nú komið í 44%. Mörgum innlendum fyrirtækjum hefur lokað og starfsfólkinu sagt upp í kjölfarið, enda eru nær öll framleiðslufyrirtæki háð aðföngum frá Ísrael. Ísrael hefur stöðvað innflutning á öllum vörutegundum sem ekki teljast nauðsynjavörur. Það er aðallega um að ræða matvæli, en hráefni til iðnaðar eða aðföng til að halda við mannvirkjum og tækjum fást ekki flutt yfir landamærin.

„Það er erfitt að finna sýklalyf og mörg önnur lyf. Það er mjög lítið af mjólkurdufti fyrir börn og þegar það er til er það svo dýrt að fáir hafa efni á því.“ - Dr Salah, lyfsali á Gasaströndinni


Minni landbúnaðarframleiðsla
Bændur á Gasa-ströndinni minnast þess hve grænt og frjósamt land þeirra var áður. Uppskeran af sítrus- og ólífutrjám þeirra var seld bæði á Vesturbakkanum og í Ísrael. Í dag hefur stór hluti af plantekrum þeirra verið eyðilagður í hernaðaraðgerðum Ísraelsmanna.

Um 5000 bændur á Gasa eru háðir útflutningi á tómötum, jarðaberjum og blómum en sjá nú ekki lengur fram á að geta selt afurðir sínar. Uppskerutíminn fyrir þessar mikilvægu matvörur hófst í júní en viðskiptabannið hefur orðið til þess að mikill hluti matvælanna hefur eyðilagst.

„Fyrst tóku þeir land fyrir veginn og síðan meira land undir öryggissvæðið meðfram veginum. Nú hafa þeir aftur jafnað allt við jörðu og ég á ekki lengur neitt.“ - Abdul, Gasaströndinni


Hnignandi samfélagsþjónusta
Vatnsveitur og skólpkerfi á Gasaströndinni eru í mjög slæmu ásigkomulagi. Fyrir átta mánuðum brast stífluveggur með þeim afleiðingum að gríðarlegt magn af óunnu skólpi rann út. Skólpið rann yfir þorp hirðingja og drap fimm manns en slasaði sextán. Heimili þúsunda eyðilögðust. Ekki hefur reynst mögulegt að láta fram fara viðgerðir á stíflunni vegna skorts á fjármagni og varahlutum.

Mikilvæg samfélagsþjónusta á borð við sjúkrahús, vatnsveitur og skólpkerfi þurfa að nota varaaflstöðvar til að fá rafmagn. Þessar rafstöðvar eru óáreiðanlegar og mjög dýrar í rekstri. Erfitt getur verið að ná í það eldsneyti sem er nauðsynlegt til að halda þeim gangandi. Þær viðskiptahindranir sem nú eru í gildi takmarka innflutning á eldsneyti og varahlutum, sem veldur því að hætta er á algeru hruni þeirra stofnana sem halda uppi mikilvægri samfélagsþjónustu í landinu.

„Við vitum ekki hvernig þetta endar. Sjúkrahús berjast um að fá eldsneyti. Ef það klárast  verður fyrst farið að skammta orku til þvottahúsa spítalanna. Síðan munu lækningatæki stöðvast. Og það verður bara byrjunin á hræðilegum endalokum.“ - Abu Hassan, Gaza


Skert frelsi á Vesturbakkanum

Aðgangur að landi
Ástandið á Vesturbakkanum fer versnandi dag frá degi. Palestínumenn eru varnarlausir gagnvart landtöku Ísraelsmanna. Landnemar hafa þanið út byggðir sínar með miklum hraða og lagt  undir sig jarðir sem palestínskar fjölskyldur hafa ræktað í margar kynslóðir.

Landamæragirðing sú sem reist hefur verið til að aðskilja Vesturbakkann frá Ísrael nær langt inn á svæði Palestínumanna og margir bændur komast ekki lengur á akra sína. Víða skilur girðingin ræktarlandið frá þorpunum þar sem bændurnir búa. Í sumar horfðu margir ólífubændur á tré sín brenna hinu megin við girðinguna án þess að fá nokkuð að gert vegna þess að hliðin voru lokuð og ekki var hægt að fá þeim lokið upp. Mörg trjánna voru fimmtíu ára gömul og með þeim hvarf afraksturinn af striti tveggja kynslóða á einni nóttu.

Til að fá leyfi til að fara um hliðin þurfa bændur að berjast við völundarhús skriffinsku og sýna fjölda skjala sem sanna búsetu þeirra og eignarhald á landinu. Flestir bændur þurfa að eyða miklum tíma á opinberum skrifstofum í Ísrael til að sækja um þessi leyfi. Mörgum umsóknum er hafnað ef talið er að öryggi stafi ógn af umsækjanda. Oft þarf ekki annað tilefni en að viðkomandi hafi átt skyldmenni í ísraelsku fangelsi.

„Ég vann áður á markaðinum í Nablus. En árið 2002 var dregið mikið úr ferðafrelsi almennings og ég neyddist til að færa búðina mína á markaðinn í Beita, sem er 12 km frá heimili mínu. Ég þurfti að bíða við vegartálma á leiðinni sem varð til þess að það tók mig tvo tíma að komast í búðina mína. Af þeim sökum neyddist ég til að flytja til Beita og kem einungis heim til fjölskyldu minnar á miðvikudögum þegar markaðurinn er lokaður. Ég sakna barnanna minna.“ - Murad, Nablus héraði

Aðgangur að vegum
Mörgum vegum sem áður tengdu þorp í Palestínu við nálægar borgir hefur nú verið lokað með steinum, skurðum, moldarhaugum eða læstum hliðum. Þessar hindranir koma í veg fyrir að Palestínumenn geti nálgast akra sína, vatnsból og jafnvel ruslahauga. Fólk kemst ekki á milli byggðarlaga, þorpa eða borga.

Frá heimilum sínum á Vesturbakkanum sjá íbúarnir nýmalbikaða vegi sem aðeins Ísraelsmenn mega nota. Þessir vegir liggja um land Palestínumanna og tengja landnemabyggðir Ísraelsmanna við Jerúsalem og Tel Aviv. Palestínumenn þurfa að notast við moldartroðninga og verða að fara langar krókaleiðir til að komast til skóla, á vinnustaði, sjúkrahús og bænahús, eða til að heimsækja ættingja og vini.

Út úr Nablus sem áður var blómleg borg í norðurhluta Vesturbakkans komast íbúarnir aðeins inn og út úr borginni um tvo vegi. Íbúar borgarinnar, sem eru um 177000 talsins hafa ekki leyfi til að aka áfram suður á bóginn í eigin bifreiðum og þurfa að nota leigubíla þrátt fyrir lítil fjárráð.

„Við vöknuðum við birtuna af logunum. Við hlupum út og sáum að það var kviknað í ólífutrjánum okkar. Slökkviliðið komst ekki að plantekrunni vegna þess að hliðið var lokað. Plantekran okkar er hinu megin við girðinguna kringum Vesturbakkann og við komumst ekki þangað á hverjum degi, þannig að við gátum ekki hreinsað almennilega í kringum trén. Þetta kvöld gátum við ekkert gert nema horfa á trén okkar brenna vegna þess að hliðið var lokað.“ - Bændur frá Beitunia, Ramallah héraði


Áreiti af hálfu ísraelskra landnema
Palestínumenn sem búa nálægt byggðum ísraelskra landnema hafa ekki aðeins misst land sitt heldur verða þeir einnig oft fyrir áreiti af þeirra hálfu. Árásum á óbreytta borgara á Vesturbakkanum hefur fjölgað stöðugt. Samkvæmt Alþjóða Rauða krossinum (Alþjóðaráði Rauða krossins, ICRC) hefur fjöldi árása þrefaldast á undanförnum þremur árum, en lögregla lætur hjá líða að rannsaka málin til hlítar og finnur sjaldan árásarmennina.

„Ég neyddist til að byggja háa girðingu kringum húsið mitt til að vernda börnin mín. Áður grýttu landnemar börnin mín þegar þau léku sér úti. Þeir grýta okkur af þeirri ástæðu einni að við búum áfram á landinu okkar og viljum ekki fara.“ - Anwar, Hebron


Réttur Palestínumanna til að lifa mannsæmandi lífi
Réttur Palestínumanna er fótum troðin dag eftir dag, bæði á Vesturbakkanum og Gasa. Róttækar öryggisráðstafanir Ísraelsmanna hafa valdið Palestínumönnum miklum þjáningum. Þeir sem búa á hernumdu svæðunum eiga oftast nóg til að halda lífi en þeir geta ekki lifað eðlilegu lífi sem frjálsir menn.

Ísrael hefur rétt á því að vernda eigin borgara. Hins vegar ber þeim að gæta þess að haldið sé eðlilegu jafnvægi milli öryggisráðstafana og varðveislu mannréttinda, frelsis og eðlilegra lífsskilyrði þeirra Palestínumanna sem búa á hernumdu svæðunum. Hingað til hefur þetta jafnvægi ekki náðst.

Enn valda átök og efnahagsvandi Palestínumönnum á Gasa-ströndinni bæði heilsutjóni og tekjumissi. Skortur á rafmagni og eldsneyti eykur enn á hörmungar þeirra. Grundvallarmannréttinda íbúanna er ekki gætt sem skyldi í þessum efnum.

Á Vesturbakkanum hafa landnemabyggðir Ísraelsmannna áhrif á líf Palestínumanna með margvíslegum hætti og veldur því að þeir missa bæði land og tekjur, auk þess sem þeir þurfa að þola ofbeldi af hálfu landnema. Yfirþyrmandi hömlur á ferðafrelsi hindra að fólk komist til vinnu og valda mikilli fátækt og atvinnuleysi.

Til að hægt sé að draga úr skelfilegum afleiðingum hernámsins og endurreisa efnahag og samfélag Palestínumanna þarf samstillt átak allra deiluaðila. Samvinna og sáttfýsi stríðandi fylkinga er lykillinn að mannsæmandi lífsskilyrðum almennings á herteknu svæðunum.