Ríkisstjórnin veitir fé til Rauða krossins vegna neyðaraðstoðar í Kenía

25. jan. 2008

Utanríkisráðuneytið hefur veitt Rauða krossinum sjö milljónir króna til neyðaraðstoðar í Kenía. Féð rennur til aðgerða Alþjóða Rauða krossins og er framlag Íslands þá samtals tíu milljónir en Rauði kross Íslands lagði þrjár milljónir til hjálparstarfsins í byrjun janúar.

Ástandið í Kenía er ennþá spennuþrungið, sérstaklega í Nairóbí, Rift dalnum, í Mombassa og í vesturhluta landsins. Þrátt fyrir sáttaumleitanir, nú síðast með milligöngu Kofí Annan fyrrverandi aðalritara Sameinuðu þjóðanna, eru engin merki um að ástandið sé að lagast.

Aðgerðir Alþjóða Rauða krossins og Rauða krossins í Kenía felast í því að útvega fórnarlömbum átakanna matvæli og aðrar nauðsynjar eins og teppi, moskítónet, hreinlætisvörur og vatn.

Með stuðningi Alþjóða Rauða krossins hefur Rauði krossinn í Kenía komið á fót leitarþjónustu á þeim svæðum þar sem fólk hefur neyðst til að flýja heimili sín. Nú þegar hafa 120 börn fundið foreldra sína með aðstoð Rauða krossins af þeim 150 börnum sem hafa orðið viðskila við fjölskyldur sínar.

Einnig hefur Rauði krossinn í Kenía komið á fót teymum sjálfboðaliða sem veita sálrænan stuðning.

Nánari upplýsingar um hjálparstarfið í Kenía má finna á vef Alþjóða Rauða krossins.