Rauði krossinn bregst við flóðum í sunnanverðri Afríku

25. jan. 2008

Alþjóða Rauði krossinn hefur sent frá sér neyðarbeiðni sem hljóðar upp á tæpar 490 miljónir króna (8 milljónir svissneskra franka) til að styðja Rauða kross félög í suðurhluta Afríku í neyðarviðbrögðum þeirra vegna flóða.

 „Stöðugar rigningar síðasta mánuðinn hafa orðið til þess að ár hafa flætt yfir bakka sína, sérstaklega Zambezi fljótið. Af þeim sökum hafa flóð valdið miklu tjóni og búsifjum í Mósambík, Sambíu og Simbabve. Auk þess hafa stormar með hagléljum valdið miklum usla í Lesótó og Svasílandi. Í Caprivi héraði í Namibíu, sem og í Malaví hafa verið miklar rigningar upp á hvern einasta dag,” segir Francoise Le Goff, yfirmaður svæðisskrifstofu Alþjóða Rauða krossins í suðurhluta Afríku, en sú skrifstofa styður öll Rauða kross félögin á svæðinu.

„Regntímabilið er aðeins hálfnað og veðurspár gera ráð fyrir miklum rigningum áfram,” segir John Roche, samhæfingarstjóri aðgerða í suðurhluta Afríku. „Við óttumst að þetta sé aðeins byrjunin og að auka þurfi mannúðaraðstoð í öllum löndum sem verða fyrir búsifjum af völdum rigninganna á næstu dögum. Hingað til hafa sjálfboðaliðar Rauða krossins bjargað hundruðum mannslífa, einkum í Mósambík, með því að flytja fólk af flóðasvæðunum á svæði sem standa hærra. En þar sem hamfarirnar eru miklar er gríðarlega mikilvægt að fá meiri stuðning,” bætir hann við.

Að minnsta kosti 150 þúsund manns munu njóta góðs af neyðaraðstoð Rauða krossins, en líklegt er að auka verði aðgerðir enn frekar á næstu mánuðum. Fórnarlömb flóðanna eru í brýnni þörf fyrir húsaskjól, mat, föt, hreint vatn og hreinlætisaðstöðu.

 „Við höfum áhyggjur af að heilsufar fólksins sé í hættu því að mengað vatn getur auðveldlega leitt til útbreiðslu sjúkdóma, svo sem malaríu og kóleru,” segir Fernanda Teixeira, forseti Rauða krossins í Mósambík, en það land hefur orðið verst úti í flóðunum.

Dreifing er hafin á tjöldum, ábreiðum, flugnanetum og vatnshreinsitöflum og unnið er að því að reisa hreinlætisaðstöðu og salerni á flóðasvæðunum. Sjálfboðaliðar Rauða krossins gegna lykilhlutverki í að fræða fólk um heilsufar og hvernig bregðast eigi við svona hamförum. Sérstök áhersla verður lögð á að fólk geti komið sér aftur upp lífsviðurværi þegar flóðin fara að sjatna.
Langtímaverðurspá gerir ráð fyrir að rigningarnar standi hugsanlega fram í apríl.