Öflugt starf sjálfboðaliða Rauða krossins vegna flóða í Sunnanverðri Afríku

4. feb. 2008

Á undanförnum viku hafa flóð í sunnanverðri Afríku valdið bæði manntjóni og miklum skemmdum á mannvirkjum og heimilum. Rauða kross félög á svæðinu hafa unnið linnulaust að björgunarstörfum og hafa komið í veg fyrir enn meira manntjón af völdum hamfaranna. Hornsteinninn að þessu starfi eru tugir þúsunda sjálfboðaliða sem hlotið hafa bæði þjálfun og fræðslu á sviði hjálparstarfs.

„Það er mjög óvenjulegt að sjá flóð í Simbabve á þessum árstíma, og fólk segir að þetta hafi ekki gerst í 20 ár. Vanalega fer ekki að bera á flóðum fyrr en um miðjan febrúar en í vetur byrjuðu flóðin í desember og það er vatn allsstaðar,“ segir Tandiwe Muramba, sem er tveggja barna móðir og einn af fjölmörgum sjálfboðaliðum Rauða krossins í Simbabve.

„Hluti af starfi okkar sem sjálfboðaliðar er að vara íbúa þorpa sem eru í hættu við flóði og að fá þá til að yfirgefa heimili sín,“ segir Tandiwe. „Við brýnum fyrir öðrum að þeir verði að rata þangað sem land stendur hærra ef nauðsyn krefur og segjum þeim að reka mælistikur í jörðina til að geta séð hvenær vatnsborðið fer að hækka.“

Tandiwe hefur verið sjálfboðaliði Rauða krossins í Zimbabwe frá árinu 1992 þegar hún fór á sitt fyrsta skyndihjálparnámskeið. Hún er sjúkraliði á heilsugæslustöð Rauða krossins og tekur bæði þátt í forvarnarstarfi gegn alnæmi og heimahjúkrunarverkefnum sem sett hafa verið á fót fyrir fórnarlömb sjúkdómsins. Heimahjúkrunin felst meðal annars í lyfjaskömmtun, almennum heimilisstörfum og sálrænni aðstoð.

„Ég gerðist sjálfboðaliði Rauða krossins vegna þess að mig langar að hjálpa fólki,“ segir Tandiwe að lokum. „Margir þurfa að líða þjáningar í landinu okkar og allt sem við getum gert til að hjálpa er mjög dýrmætt. Það er góð tilfinning að vera sjálfboðaliði fyrir Rauða krossinn.“