Tveggja starfsmanna Alþjóða Rauða krossins er saknað

5. feb. 2008

Alþjóða Rauði krossinn óttast afdrif tveggja starfsmanna sinna í Pakistan. Ekkert hefur spurst til þeirra síðan laugardaginn 2. febrúar en þeir voru þá við hjálparstörf við landamæri Afganistans.

Teymi frá Rauða krossinum var í skipulagðri eftirlitsferð á merktum bíl í bænum Torkham sem er við landamæri Pakistans og Afganistans þegar starfsmaður Rauða krossins missti samband við þá. Þá voru þeir á fjölförnum vegi sem er mikið notaður til að koma hjálpargögnum frá Pakistan til Afganistans. Alþjóða Rauði krossinn lýsir áhyggjum yfir örlögum samstarfsfélaga sinna sem báðir eru pakistanskir borgarar.

„Við erum í stöðugu sambandi við yfirvöld til að tryggja að rétt sé að verki staðið við leit að þeim og að þeir komist til baka á öruggan hátt,” segir Marc Archermann, yfirmaður skrifstofu Alþjóða Rauða krossins í borginni Peshawar í norðausturhluta Pakistans.  „Öryggi hjálparstarfsmanna verður að vera til staðar til að fórnarlömb stríðsátaka fái þá hjálp sem þau þarfnast.”