Rauði kristallinn samþykktur sem þriðja merkið

22. jún. 2006

Rauði kristallinn er orðinn þriðja merki hreyfingarinnar og hefur sömu þýðingu og rauði krossinn og rauði hálfmáninn.

Samþykkt var á 29. alþjóðaráðstefnu Rauða krossins og Rauða hálfmánans sem lauk nú undir morgun að bæta við þriðja merki hreyfingarinnar, rauða kristalnum. Merkið hefur sömu þýðingu og rauði krossinn og rauði hálfmáninn sem verndartákn á átakasvæðum og fyrir starfsmenn og sjálfboðaliða hreyfingarinnar.

Þá hefur Alþjóðaráð Rauða krossins viðurkennt Rauða hálfmánann í Palestínu og Rauðu Davíðstjörnuna í Ísrael sem fullgild landfélög. Alþjóðasamband Rauða krossins og Rauða hálfmánans samþykkti einnig inngöngu landsfélaganna nú í morgun.

„Það er afskaplega ánægjulegt að þessum áfanga skuli vera náð, að það hafi tekist að leysa þetta viðfangsefni sem hreyfingin hefur verið að fást við í langan tíma. Þetta sýnir styrk og einingu mannúðarhugsjónar Rauða krossins að þessi tvö landsfélög skuli geta starfað saman hlið við hlið á jafnréttisgrundvelli," sagði Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri, sem sótti ráðstefnuna fyrir hönd Rauða kross Íslands ásamt Ómari H. Kristmundssyni formanni félagsins.

Með samþykktinni geta Alþjóðaráð Rauða krossins, Alþjóðasambandið og landsfélög notað Rauða kristalinn tímabundið og í undantekningartilvikum þar sem það á við. Samþykktin skuldbindur hinsvegar hvorki ríki né landsfélög að breyta notkun sinni á merki eigin félags. Alþjóðaráðið og Alþjóðasambandið munu heldur ekki breyta nafni né núverandi merki sínu.

Alþjóðaráðstefna Rauða krossins og Rauða hálfmánans er sótt af fulltrúum landsfélaga, Alþjóðasambandinu og Alþjóðaráðinu ásamt fulltrúum þeirra ríkja sem hafa undirritað Genfarsáttmálann. Fulltrúar 178 landsfélög og 148 ríkja sóttu ráðstefnuna að þessu sinni.