Flóðunum í sunnanverðri Afríku er ekki lokið

18. feb. 2008

Alþjóða Rauði krossinn hefur uppfært neyðarbeiðni sína vegna flóðanna í sunnanverðri Afríku. Óskað er eftir sem svarar tæplega 700 milljónum íslenskra króna (11,4 milljónum svissneskra franka) frá styrktaraðilum hreyfingarinnar. Fénu verður varið til að styrkja landsfélög Rauða krossins í sunnanverðri Afríku til gera að þeim kleift að bregðast við gríðarlegum flóðum á svæðinu. Alþjóða Rauði krossinn gaf fyrst út neyðarbeiðni vegna hamfaranna þann 18. janúar og óskaði þá eftir sem svarar tæplega 500 milljónum íslenskra króna (8 milljónum svissneskra franka).

„Miklar rigningar frá því í desember hafa valdið því að vatnsborð í ám hefur hækkað ískyggilega. Búist er við því að flóðin verði sérstaklega mikil í Mósambík. Vatnsborð í Zambezi-fljóti heldur áfram að hækka og er komið upp fyrir hættumörk. Ákvörðunin um að hleypa vatni úr Kariba-stíflu í Zambíu eykur enn frekar líkurnar á alvarlegum flóðum á næstunni,“ segir John Roche, starfsmaður Alþjóða Rauða krossins í Genf.

Rúmlega 334.000 manns í sunnanverðri Afríku hafa orðið fyrir tjóni vegna flóðanna. Þar á meðal 106.000 í Mósambík 139.000 í Malaví, 32.500 í Simbabve, 20.000 í Sambíu og 24.000 í Namibíu. Miklar rigningar og óveður hafa einnig valdið tjóni í Lesotó, Svasílandi og Botsvana.

„Búist er við meiri rigningum, og af þeim sökum aukinni þörf fyrir mannúðaraðstoð. Jafnframt er búist við því að flóðin muni spilla uppskeru og að á sumum svæðum verði skortur á matvælum,“ segir Francoise Le Goff, sem stýrir svæðisskrifstofu Alþjóða Rauða krossins í sunnanverðri Afríku. „Við þurfum einnig að leggja meiri áherslu á neyðarvarnir. Við vitum að komið hefur verið í veg fyrir gríðarlegar hörmungar af völdum flóðanna í vetur, þökk sé því viðvörunarkerfi sem nú er til staðar. Það hefur gert sjálfboðaliðum kleift að flytja fólk af hættusvæðum í tæka tíð. Flóð eru mun tíðari og óútreiknanlegri í sunnanverðri Afríku nú en áður. Það er  því mikilvægt að haldið verði áfram að styrkja neyðarvarnir á svæðinu.“

Í neyðarbeiðninni er lögð áhersla á að hjálpa rúmlega 154.000 manns í sex mánuði. Meðal verkefna má nefna dreifingu matvæla og annarra lífsnauðsynlegra hjálpargagna á borð við segldúka, tjöld, flugnanet og töflur til að sótthreinsa vatn. Fleiri kamrar verða byggðir. Sjálfboðaliðar Rauða krossins í þeim samfélögum þar sem tjón hefur orðið mest vegna hamfaranna munu efla fræðslu um heilbrigði og neyðarvarnir. Þúsund sjálfboðaliðar í þeim löndum sem orðið hafa fyrir mestu tjóni verða þjálfaðir til að veita heilbrigðisfræðslu.

Veðurspár bæði til skemmri og lengri tíma gera ráð fyrir áframhaldandi rigningum fram í apríl. Alþjóða Rauði krossinn hefur frá því um miðjan janúar varað við því að alvarlegur mannúðarvandi væri yfirvofandi í sunnanverðri Afríku vegna flóða.