Sálrænn stuðningur til systurfélags Rauða krossins í Ísrael

22. feb. 2008

Rauði kross Íslands hefur sent tæpa eina milljón króna til að aðstoða systurfélag sitt í Ísrael, Magen David Adom (Rauðu Davíðsstjörnuna) við að setja á fót verkefni í sálrænum stuðningi.  Þetta markar upphafið að samstarfi Rauða kross Íslands og Magen David Adom.

Rauði kross Íslands hefur starfað í Palestínu síðan árið 2002 að verkefni í sálrænum stuðningi í samvinnu við palestínska Rauða hálfmánann og danska Rauða krossinn. Um 27.000 skólabörn njóta góðs af verkefninu sem stuðlar að því að auka velferð þeirra sem búa við afleiðingar átaka á degi hverjum.

Rauði krossinn hefur um árabil sinnt sálrænum stuðningi hér á landi þegar neyðarástand skapast eða stórslys verða, og hefur því víðtæka þekkingu á því sviði. Rauði kross Íslands sinnir fjöldahjálp og félagslegu hjálparstarfi samkvæmt samningi við Almannavarnir og opnar fjöldahjálparstöðvar á hættu- og neyðartímum. Rauði krossinn bregst einnig við skyndilegum áföllum utan almannavarnaástands eins og húsbrunum og flóðum.

Verkefni Rauða krossins og Magen David Adom í Ísrael munu í fyrstu snúa að þjálfun sjúkraflutningamanna í sálrænum stuðningi á vettvangi, en líkt og á Íslandi sinnir Magen David Adom meirihluta sjúkrabílaþjónustu í Ísrael. Kannanir hafa leitt í ljós að um 60% skjólstæðinga sjúkraflutningamanna á átakasvæðum í landinu þurfa á sálrænum stuðningi að halda.