Forvarnarstarf Rauða krossins gegn malaríu í Gambíu

12. feb. 2008

Rauði krossinn í Gambíu dreifir flugnanetum til barnshafandi kvenna og mæðra ungra barna með aðstoð Alþjóða Rauða krossins

Rauði krossinn í Gambíu dreifði í lok janúar flugnanetum til efnalítilla íbúa í norðurhéruðum landsins og naut til þess aðstoðar Alþjóða Rauða krossins. Netunum var dreift til um 6000 barnshafandi kvenna og mæðra barna yngri en fimm ára. 40 sjálfboðaliðar frá landsfélaginu dreifðu netunum á fimm dögum.

„Sjálfboðaliðarnir gengu einnig hús úr húsi til að fræða fólk á svæðinu fyrir norðan Gambíufljót um ástæður malaríu og hvernig koma megi í veg fyrir útbreiðslu hennar, með því að nota flugnanet á réttan hátt," útskýrir Katim Tourey, sem stýrir heilbrigðisverkefni Rauða krossins í Gambíu.

Flugnanet frá Rauða krossinum bjarga mörgum mannslífum
Ekki langt fyrir norðan Gambíufljót stendur þorpið Kinteh Kunda sem telur aðeins um 2000 íbúa og margir þeirra hafa mjög lítið milli handanna. Þar líkt og víðar á gresjunum við suðurmörk Saharaeyðimerkurinnar, er malaría ein helsta dánarorsök barnshafandi mæðra og barna yngri en fimm ára. Malaría er einnig helsta ástæða þess að menn þurfa að leita sér læknisaðstoðar á svæðinu.

Sjálfboðaliðar Rauða krossins í Gambíu gengu hús úr húsi á svæðinu fyrir norðan Gambíufljót til að tala við fólk um ástæður malaríu og hvernig koma megi í veg fyrir útbreiðslu hennar með því að nota flugnanet á réttan hátt.
Rauði krossinn í Gambíu úthlutaði þorpsbúum í Kinteh Kunda og nálægum héruðum flugnanetum endurgjaldslaust með stuðningi frá Alþjóða Rauða krossinum. Meðal þeirra sem nutu góðs af þessari aðstoð voru Natomah Kinteh og Mariamah dóttir hennar.
Íbúar í Kinteh Kunda voru mjög ánægðir að fá flugnanet frá Rauða krossinum í Gambíu. Þessi aðstoð skiptir miklu fyrir Natoma Kinteh og dóttur hennar.
Íbúar í Kinteh Kunda voru mjög ánægðir að fá flugnanet frá Rauða krossinum í Gambíu. Þessi aðstoð skiptir miklu fyrir Natoma Kinteh og dóttur hennar.

Meðal íbúa Kinteh Kunda sem nutu góðs af þessari aðstoð voru hin nítján ára Natomah Kinteh og Mariamah dóttir hennar. Á síðasta ári veiktist Natomah svo alvarlega af malaríu að henni var vart hugað líf. Hún gerir sér því mjög vel grein fyrir því að þessi sjúkdómur gæti orðið dóttur hennar að bana. Götótt flugnanet hangir yfir rúminu hennar og veitir lítið skjól gegn ágengum moskítóflugunum.

„Flugurnar komast inn um götin á netinu og halda oft fyrir okkur vöku á nóttunni. Ég hef áhyggjur af því að dóttir mín sýkist af malaríu,” segir Natomah.

Með réttri notkun á flugnanetum má að mestu koma í veg fyrir veikindi af völdum malaríu. Margar fjölskyldur í Gambíu hafa hins vegar ekki efni á þeim eða búa á svæðum þar sem flugnanet fást ekki í búðum.

Kjörskilyrði fyrir moskítóflugur
Áveitur og manngerðir pollar með kyrru vatni valda því að í Kinteh Kunda og öðrum svæðum norðan Gambíufljóts eru uppeldisskilyrði fyrir moskítóflugur mjög góð og af þeim sökum gríðarleg þörf fyrir flugnanet. Mjög miklu máli skiptir jafnframt að fólki sé kennt að nota netin rétt og að jafnframt er mikilvægt að fleiri hópar njóti góðs af aðstoðinni í framtíðinni. Flugnanetin sem Rauði krossinn í Gambíu dreifði í janúar munu bjarga mörgum mannslífum og forða mörgum frá þjáningum.

Rauði kross Ísland hefur verið í samstarfi við gambíska Rauða krossinn síðan 1992. Ungmennahreyfingin hefur starfað með ungmennahreyfingu Rauða krossins í Gambíu til fjölda ára og gambísk ungmenni hafa komið árlega undanfarin þrjú ár og unnið að ýmsum verkefnum með Reykjavíkurdeildinni.

Hlín Baldvinsdóttir sendifulltrúi vinnur um þessar mundir að fjármálauppbyggingu í höfuðstöðvum gambíska Rauða krossins og deildir Rauða kross Íslands á Vesturlandi, Vestförðum, Suðurlandi og í Reykjavík eru í vinadeildasamstarfi við ákveðin svæði í landinu.