Sjúkrahús í Gaza anna vart umönnun særðra borgara

4. mar. 2008

Sívaxandi ofbeldiog átök á Gazasvæðinu undanfarna daga hafa haft veruleg áhrif á íbúa, sérstaklega í næsta nágrenni við Ísrael. Óbreyttir borgarar hafa orðið verst fyrir barðinu á aðgerðum ísraelska hersins. Síendurteknar árásir hersins gera Rauða hálfmánanum erfitt um vik að flytja sært og veikburða fólk frá átakasvæðunum.

Bardögum hefur heldur linnt frá því á mánudag, en ástandið er enn viðkvæmt og mikil spenna ríkir. Unnið er á gjörgæslu- og skurðstofum allan sólarhringinn, en sjúkrahúsin í Gaza geta varla annað þessu mikla álagi sem verið hefur undanfarna daga.

„Helstu sjúkrahúsin á svæðinu, sérstaklega í norður Gaza, eru undir miklu álagi.  Heilbrigðisstarfsmenn leggja sig allir fram við að annast þá sem hafa særst, sérstaklega þeim sem þurfa á bráðaaðgerð að halda,” segir Eileen Daly starfsmaður Alþjóða Rauða krossins á vettvangi. „Markmið Alþjóða Rauða krossins er að sjá til þess að hinir særðu fái flutning á þau sjúkrahús sem eiga yfir að ráða viðeigandi aðbúnaði og þekkingu til að sinna þeim, og flytja aðra á sjúkrahús fyrir utan Gasa eftir því sem þörf er á.”

Síðustu tvo daga hefur Alþjóða Rauði krossinn dreift nauðsynlegum birgðum til heilbrigðisstofnana svo sem sáraumbúðum, deyfi- og verkjalyfjum, blóðvökva, líni, spelkum og skurðstofuáhöldum til sjúkrahúsanna Kamal Eswan og Al Awda á Gazazvæðinu. Þá hefur Alþjóða Rauði krossinn einnig flutt blóð til sjúkrahúsanna, sem safnað var á Vesturbakkanum. Eins og er, gerir Rauði krossinn ráð fyrir að sjúkrabirgðir í vöruhúsum samtakanna nægi, en það getur breyst ef ástandið versnar.

Erfitt hefur reynst að tryggja sjúkrahúsunum í Gaza nægt eldsneyti undanfarnar vikur, og er það ástand viðvarandi. Rafmagn er skammtað á svæðinu, og hafa sjúkrahúsin neyðst til að notast við vararafstöðvar.

Rauði krossinn er einnig í nánu samstarfi við systurfélag sitt í Ísrael, Magen David Adom (Rauðu Davíðsstjörnuna), sem hefur unnið sleitulaust við að veita aðstoð í Sderot og fleiri bæjum í nágrenni við Gaza.

Alþjóða Rauði krossinn minnir á að samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum má ekki undir neinum kringumstæðum beina árásum að óbreyttum borgurum. Stríðandi fylkingum ber að vernda óbreytta borgara og virða reglur Genfarsamninganna í hvívetna.

Einn reyndasti sendifulltrúi Rauða kross Íslands, Pálína Ásgeirsdóttir hjúkrunarfræðingur, hefur starfað með Alþjóða Rauða krossinum og Rauða hálfmánanum í Palestínu á átakasvæðunum undanfarna mánuði.