Fellibylur eykur enn á neyð í Mósambík

14. mar. 2008

Mósambík varð aftur fyrir alvarlegu áfalli þegar fellibylurinn Jokwe reið yfir landið um síðustu helgi.  Þetta er í annað sinn á tveimur mánuðum sem náttúruhamfarir valda eyðileggingu í Mósambík.  Tugþúsundir manna er enn heimilislausar eftir mikil flóð í febrúar.  Rúmlega 8.000 hús meðfram ströndinni í norðurhluta landsins eyðilögðust af völdum fellibylsins, og rúmlega 40.000 manns þurftu að flýja heimili sín.

„Nákvæmar tölur fyrir landið allt eru ekki tiltækar því að ríksstjórnin og aðrar stofnar hafa enn ekki metið ástandið að fullu," segir Fernanda Teixeira, framkvæmdastjóri Rauða krossins í Mósambík. „Rauði krossinn vinnur nú með yfirvöldum að því að leggja mat á ástandið og búist er við mun fleiri hafi orðið fyrir barðinu á fellibylnum.”

Ástandið er verst í Nampula héraði í norðurhluta landsins. Yfirvöld í Nampula hafa staðfest að níu manns hafi látið lífið og finm hafi slasast í óveðrinu. Raflínur fóru í sundur og vatn mengaðist, en unnið er að því að sjá fólki fyrir skjóli og hreinu vatni.

„Í Nampula hafa 60 sjálfboðaliðar reist tjöld og skýli úr plastdúkum fyrir fólk sem þurft hefur að yfirgefa heimili sín," segir Teixeira.

Hluti af aðstoð Rauða krossins felst í því að dreifa flugnanetum, teppum, brúsum, plastfötum og dýnum. Í Zambezia héraði, sem varð einnig mjög illa úti í floðunum fyrir rúmum mánuði, aðstoða 30 sjálfboðaliðar fórnarlömb fellibylsins. Mikil þörf er fyrir plastdúka, segldúka, vatnsgeyma og klór til að sótthreinsa vatn. Ástandið gæti átt eftir að versna á næstu dögum.

Alþjóða Rauði krossinn fylgist náið með ástandinu og mun senda neyðarbirgðir þangað sem þörf er þegar aðstæður liggja fyrir.

„Undanfarin þrjú ár hefur Rauði krossinn í Mósambík lagt áherslu á að efla getu byggðarlaga á hættusvæðum til að bregðast við hamförum," segir Farid Aiywar neyðarvarnarfulltrúi Alþjóða Rauða krossins í sunnanverðri Afríku. „Komið hefur verið á fót viðvörunarkerfi sem sett er af stað í hvert skipti sem hætta er á flóðum eða fellibyljum. Þegar viðvörun berst fylgja íbúar hættusvæða ítarlegum neyðaráætlunum. Þetta viðvörunarkerfi hefur skipt sköpum fyrir öryggi almennings og stórlega dregið úr dauðsföllum og meiðslum í hamförum undanfarinna mánaða.  Það er einnig ástæðan fyrir því hversu fáir hafa látið lífið í fellibylnum og flóðunum."

Rauði krossinn í Mósambík er eitt af nánustu samstarfsfélögum Rauða kross Íslands í sunnanverðri Afríku.  Nína Helgadóttir starfsmaður Rauða krossins í Mapútó hefur undanfarin ár haft yfirumsjón með samstarfsverkefnum á svið heilsugæslu með Rauða krossinum í Mósambík og Þróunarsamvinnustofnun Íslands, og einnig aðstoðað við verkefni Rauða krossins vegna hamfaranna.  Þá stjórnaði Hólmfríður Garðarsdóttir, einn reyndasti sendifulltrúi Rauða kross Íslands, aðgerðum á flóðasvæðum í Mósambík í fyrra.

Rauði kross Íslands brást við neyðarbeiðni Alþjóða Rauða krossins vegna flóðanna í febrúar. Þar var óskað eftir framlögum að upphæð sem svarar tæplega 700 milljónum íslenskra króna. Neyðarbeiðnin var gefin út 13. febrúar á þessu ári til styrktar Rauða krossinum í Mósambík og öðrum landsfélögum á þeim svæðum sunnanverðar Afríku sem orðið hafa fyrir mestu tjóni af völdum flóðanna undafarna mánuði.