Styrktarfélagar aðstoða hirðingja í Mongólíu

18. maí 2004

Framlög styrktarmanna árið 2003 renna öll til aðstoðar við fólk sem hefur orðið illa úti í kuldunum í Mongólíu.
Óvenju harðir vetur, fjórða árið í röð, ógna nú hirðingjasamfélögum í Mongólíu. Þúsundir fjölskyldna, sem voru þegar búnar að missa stóran hluta búsmalans, horfa nú fram á algjöran eignamissi. Þegar skepnurnar deyja kemur röðin fljótt að mannfólkinu.

Mongólar kalla þetta ástand „dzud". Það er þegar þurrkar valda því að grasið grær ekki eðlilega yfir sumarið og veturinn er svo snjóþungur að húsdýrin ná ekki að krafsa sig niður í svörðinn. Fóður er af skornum skammti. Á síðustu þremur árum hafa sex milljón dýr fallið úr hor. Í janúar 2003 féllu 24.000 skepnur. Ástandið getur bara versnað fram að vori.

Rauði krossinn hefur þegar hafið dreifingu á matvælum til fólks í tveimur héruðum, þar sem ástandið er hvað verst. Öll framlög styrktarfélaga Rauða krossins renna beint í hjálparstarf Alþjóða Rauða krossins í Mongólíu. Hægt er að gerast styrktarfélagi hér á vefnum.

Frostið, sem fer niður í 36 gráður á Celcíus og snjókoman, sem hefur verið mikil allt síðan í nóvember hefur tekið sinn toll bæði í mannslífum og búpeningi. Kal, lungnasjúkdómar ásamt líkamlegri og andlegri örmöngun af tilraunum til að halda lífi í skepnunum fer vaxandi.

Í Bulgan héraði einu höfðu meira en 31.600 skepnur drepist frá því í vetrarbyrjun fram í miðjan febrúar. Búist er við að 2,5 milljónir dýra farist veturinn 2002 - 2003. Mánuðirnir fram að vori 2003 munu skera úr um hvort hirðingjunum tekst að fóðra skepnur sínar fyrir sumarbyrjun þegar grasið fer að spretta að nýju.