Stuðningur styrktarmanna hjálpar bágstöddum

17. maí 2004

Styrktarmenn Rauða kross Íslands hafa um árabil fjármagnað ákaflega mikilvægt hjálparstarf á erlendri grund. Þetta er um fimm þúsund manna hópur, sem greiðir árlega ákveðna upphæð - að lágmarki 2.500 krónur á ári - til eins verkefnis í senn.

Á árinu 2004 verður lögð áhersla á að hjálpa börnum í stríði. Á árinu 1994 var féð notað til að byggja upp heilsugæslu í Palestínu, fyrir þá sem ekki hafa efni á opinberri heilbrigðisþjónustu. Árið 1995 var munaðarlausum börnum frá stríðshrjáðum þorpum í Bosníu og Hersegóvínu gert kleift að sækja sumarbúðir við Adríahaf og gleyma þannig um stund hörmungum stríðsins.

Á árinu 1996 voru aldraðir íbúar ríkja gömlu Júgóslavíu aðstoðaðir yfir köldustu vetrarmánuðina. Vetrarhörkur voru mönnum einnig ofarlega í huga þegar fé styrktarmanna var notað til að kaupa góða kuldaskó fyrir 20.000 börn í Kasakstan, enda komust mörg þeirra ekki í skóla vegna skóleysis.

Styrktarfélagar brugðust frábærlega við árið 1998 þegar sent var út neyðarkall vegna fórnarlamba jarðsprengna í Írak og Bosníu og framlögin voru hærri en áður voru dæmi um. Á árinu 1999 fóru framlög styrktarmanna til heilsugæsluverkefnis í Mósambík í samvinnu við mósambíska Rauða krossinn og Þróunarsamvinnustofnun Íslands.

Á árunum 2000, 2001 og 2002 fóru framlög styrktarmanna öll til baráttunnar gegn alnæmi, hinum óhugnanlega sjúkdómi sem er að leggja heilu héruðin í sunnanverðri Afríku nánast í eyði. Hér á vefnum má fá upplýsingar um hættuna sem álfunni er búin af alnæmi, aðstæður barna sem hafa misst foreldra sína í helgreipar alnæmis, starf Rauða kross félaga í Afríku að heilbrigðismálum og verkefni sem Rauði kross Íslands styður í sunnanverðri Afríku. Á árinu 2003 voru hirðingjar í Mongólíu aðstoðaðir í kjölfar mikilla harðinda sem komu illa niður á bústofninum.

Þá er hægt að gerast styrktarfélagi, eða - fyrir núverandi styrktarfélaga - að setja styrktargreiðslur á greiðslukort, sem minnkar mjög innheimtukostnað.