Saga Amiru

7. jún. 2004

Áslaug Arnoldsdóttir hjúkrunarfræðingur starfaði sem heilbrigðisfulltrúi á vegum Alþjóðaráðs Rauða krossins í Írak á árunum 1999 til 2000. Hún var staðsett í Erbil í N-Írak og hafði þar umsjón með heilsugæslu á svæðinu. Það kom einnig í hlut Áslaugar að fylgjast með heilsufari stríðsfanga eins og fram kemur í frásögn hennar af fangaskiptum sem fóru fram á landamærum Íraks og Íran í apríl 2000.

Áslaug hefur áður unnið á vegum Alþjóða Rauða krossins í S-Súdan og Georgíu.

Amira gifti sig þegar hún var tvítug. Þremur árum seinna var eiginmaður hennar sendur til að berjast í einu mannskæðasta stríði sem háð hefur verið. Þetta var 1981. Amira hefur hvorki séð hann né heyrt síðan. Hún veit ekki hvort hann er lífs eða liðinn. Kannski er hann meðal þeirra þúsunda stríðsfanga sem enn er talið að séu í haldi þó stríðinu sé löngu lokið. Hún bíður, ennþá.

Saga Amiru er saga tugþúsunda kvenna sem sáu á eftir eiginmönnum sínum, bræðrum, sonum og feðrum í stríðið á milli Íran og Írak á árunum 1980-1988. Mönnum sem aldrei snéru aftur og engar fréttir hafa borist af í öll þessi ár. Frá stríðslokum hafa átt sér stað fangaskipti á milli landanna og þannig hafa margir snúið aftur heim úr stríði sem heimurinn er löngu búinn að gleyma. Þrátt fyrir það er talið að enn séu margir í haldi.

Í byrjun apríl 2000 hafði sendinefnd Alþjóða Rauða krossins í Írak umsjón með heimför 1999 Íraka sem höfðu verið í haldi frá 12 árum upp í 20 ár. Starfsmenn Rauða krossins í Íran hittu þá nokkrum mánuðum áður og skráð. Þeim hafði um leið gefist tækifæri að skrifa fjölskyldum sínum í Írak svokölluð Rauða kross skilaboð. Ég var svo heppin að vera í hópnum sem vann á landamærunum þessa 5 daga sem heimförin átti sér stað. Hér er sagan eins og ég sá hana síðasta daginn.

Við bíðum við moskuna tveimur km. frá landamærunum. Loksins heyrum við vélarhljóð, svo koma rúturnar í ljós. ?Þeir eru að koma" kallar einhver ?allir á sinn stað". Minn staður er við hliðið á moskunni svo ég geti séð mennina koma út úr rútunum, athugað ef einhver virðist veikburða eða lasinn. Þeir eru búnir að vera á ferðinni í 36 klukkutíma frá búðunum sem hafa verið heimili þeirra síðustu árin.

Út úr rútunum koma menn klæddir í gráa búninga og á nýjum skóm. Þeir eru alskeggjaðir og langflestir gráhærðir. ?Rauði krossinn er hérna" hvísla þeir sín á milli og brosa feimnislega til okkar.

Þeir hverfa allir inn í moskuna. Þar ætlar kollegi minn að útskýra fyrir þeim hvað taki við næst. ?Sumir ykkar höfðu tækifæri til að senda fjölskyldum ykkar Rauða kross skilaboð frá Teheran. Þið munið allir tala við fulltrúa Rauða krossins í einrúmi og ef þið hafið fengið svar frá fjölskyldu ykkar mun hann afhenda ykkur bréfið í viðtalinu. Að þessu loknu bíðið þið í garðinum þar til allir hafa farið í viðtal. Svo verður farið í rútum að landamærunum. Ef Guð lofar verðið þið í Írak um tvöleytið í nótt". ?Ef Guð lofar" segja allir sem einn.

Viðtölin byrja, þau eru stutt. ?Hvernig líður þér, hvað heitir þú?" og svo mikilvægasta spurningin, ?viltu fara til baka til Írak?" Þeir segja allir já, margir spyrja um ástandið í Írak. ?Við höfum heyrt að það sé viðskiptabann á landinu, er það satt?" Allir vonast eftir fréttum af fjölskyldunni, vonbrigðin eru sár þegar ekkert bréf bíður þeirra. Aðrir eru heppnari, ég rétti einum þeirra Rauða kross skilaboð. Sendandinn hefur heftað margar myndir við bréfið. Maðurinn starir á myndirnar og byrjar svo ákaft að kyssa þær með tárin í augunum. ?Sjáðu, þetta er konan mín og þetta eru börnin mín, ég hef ekki séð þau á 18 ár."

Ég fer út í garðinn. Þar sitja þeir sem hafa þegar talað við Rauða krossinn og bíða. Gráhærðir menn á nýjum skóm. ?Fraulein!" kallar einhver. Menntaskólaþýskan er grafin upp í snatri og ég sest hjá manninum sem kallaði á mig. ?Fraulein, vinur minn hér er veikur. Hann er sykursjúkur og við höfum ekkert borðað síðan í hádeginu." Kollegi minn töfrar fram epli og kex og á meðan maturinn vinnur sitt kraftaverk segir prófessorinn mér sína sögu. ?Þeir kalla mig prófessor af því ég var þýskukennari við háskólann í Bagdad áður en ég fór í stríðið. Í fangabúðunum kenndi ég samföngum mínum þýsku en þeir voru alltaf feimnir að tala hana við mig því þeir voru svo hræddir um að gera málfræðimistök. Þér er greinilega alveg sama þó þú gerir mistök!" Við hlæjum. Prófessorinn horfir á mig eins og hann vilji segja eitthvað. Ég bíð. ?Fraulein, má ég spyrja þig að einu? Erum við virkilega að fara heim?" Ég kinka kolli. ?Ég var næstum viss þegar ég sá að Rauði krossinn var hér" segir hann ?en ég vildi bara vera viss." Hann þýðir samtal okkar fyrir mennina sem sitja í kringum okkur. ?Guð er mikill" segja þeir í kór. Fleiri kalla á mig. Einn þeirra er varla fær um að ganga. Ég spyr hann hvort hann vilji fara með sjúkrabíl til Írak. Íranski Rauði hálfmáninn sé með bíla til taks ef þarf. ?Þó það sé það síðasta sem ég geri þá ætla ég að ganga yfir landamærin" segir hann stoltur.

Loks hafa allir farið í viðtal. Nú er kominn tími til að fara að landamærunum en þá segja írönsku embættismennirnir skyndilega nei. ?Þeir hafa ekkert borðað, maturinn er á leiðinni." Hrísgrjón, kjúklingur og Sam Sam, sem er kóka kóla þeirra Írana, er á matseðlinum. ?Þetta hef ég nú ekki smakkað í 20 ár" segir einn um leið og hann tekur stóran sopa af Sam Sam.

Ég fer ásamt kollega mínum að landamærunum. Klukkan er hálfþrjú að nóttu. Mitt hlutverk þar er að telja mennina þegar þeir koma út úr rútunum og ganga síðustu skrefin heim. Allt þarf að gerast samkvæmt bókinni.

Nokkra metra í burtu frá mér, í Írak, bíða fjölskyldur manna sem hafa horfið í stríðinu. Allar vonast þær eftir að sjá ástvini sína koma heim í nótt. Þetta er síðasti hópurinn sem kemur í bili, svo í nótt munu margir snúa aftur vonsviknir.

Lítil hljómsveit kemur sér fyrir og prófar hljóðfærin. Hermenn raða sér upp með myndir af forsetanum. Allt er til reiðu fyrir heimförina.

Allt í einu lifnar talstöðin okkar við. ?Við erum að koma, fyrsta rútan er lögð af stað." Stuttu seinna koma bílarnir í ljós, hljómsveitin byrjar að spila, mannfjöldinn treðst að girðingunni til að sjá sem best. Hurðin á rútunni opnast og út streyma mennirnir í gráu búningunum. Ég byrja að telja.

Sumir næstum hlaupa yfir landamærin, margir hverjir í fangið á aðstandendum sínum sem hafa beðið allt of lengi. Margir fleygja sér niður og kyssa heimalandið. Það eru mörg sterk augnablik og allt í einu verður erfitt að telja því ég sé allt í móðu. Vasaklúturinn er dreginn upp, nú sé ég betur.

Svo eru allir farnir yfir. Hljómsveitin er hætt að spila. ?Áslaug, hvað voru þeir margir?" ?Fjögurhundruðníutíuogníu" svara ég. ?Það hefði nú verið smart ef þeir hefðu verið fimmhundruð."
?Já, einn missti af rútunni" segir einhver. Hlátur. Fimmaurabrandarar eins og þessi fljúga á milli, við erum öll þreytt.

Framundan er 3ja tíma akstur til Bagdad. Þar bíður Amira mín. Eini skugginn á þessari stórkostlegu lífsreynslu er að ég þarf að segja henni að eiginmaður hennar var ekki á meðal þeirra sem snéru heim í þetta skiptið.