Eftir fimm ára stríð búa milljónir Íraka enn við hörmungar

19. mar. 2008

Fimm árum eftir að stríðið hófst í Írak hefur mannúðarástand í landinu versnað mjög mikið. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Alþjóða Rauða krossins um ástandið í Írak. Átökin valda því að milljónir manna búa við lélega hreinlætisaðstöðu og takmarkaðan aðgang að góðu drykkjarvatni og heilsugæslu. Núverandi hörmungar eru enn alvarlegri vegna fyrri styrjalda og langvarandi viðskiptabanns.

„Þó að öryggisástand hafi batnað víða í Írak er mikilvægt að hafa í huga að milljónir manna búa enn við mjög kröpp kjör,“ sagði Beatrice Megevand Roggo sem hefur yfirumsjón með verkefnum Alþjóða Rauða krossins í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku. „Meðal þeirra sem þurfa að þola mestan skort er fólk sem hefur flúið heimili sín, en einnig fjölskyldur sem hafa snúið aftur heim, börn, aldraðir, fatlaðir, ekkjur og fjölskyldur þeirra. Eins glíma fjölskyldur manna sem eru í varðhaldi oft við mikla erfiðleika.“

Þó að öryggsástand hafi batnað í sumum landshlutum býr almenningur enn víða við mikla hættu. Óbreyttir borgarar falla og særast um allt land vegna bardaga og árása. Stríðandi fylkingar gera óbreytta borgara oft beinlínis að skotmörkum sínum, sem er um leið mjög alvarlegt brot á alþjóðlegum mannúðarlögum og Genfarsamningunum. Í mjög mörgum fjölskyldum er að minnsta kosti einn sem á við sjúkleika að stríða, er særður, í varðhaldi eða á flótta fjarri heimabyggð sinni. Fjölmargir eru einnig á lista yfir horfna þar sem engar upplýsingar um afdrif þeirra liggja fyrir.

Heilsugæsla, vatnsveitur, hreinlætisaðstaða og rafmagnsveitur eru í mjög slæmu ásigkomulagi. Skortur er á helstu lyfjum og hæfu starfsfólki á sjúkrahúsum og því er mjög erfitt að sjá særðum fyrir nauðsynlegri aðhlynningu. Mörgum heilbrigðisstofnunum hefur ekki verið haldið við sem skyldi og þjónusta þeirra er oft of dýr fyrir venjulegt fólk í Írak.

Aðgangur að vatni hefur versnað undanfarið ár. Milljónir manna búa við skort á vatni sem er auk þess oft mjög mengað. Vatnsveitum og skólpkerfi er illa við haldið og skortur er á verkfræðingum.