Cristiano Ronaldo tilnefndur mannúðarsendiherra Rauða krossins

3. apr. 2008

Portúgalska fótboltastjarnan Cristiano Ronaldo hefur verið tilnefndur mannúðarsendiherra Rauða krossins fyrir Evrópukeppni landsliða sem haldin verður í Austurríki og Sviss í sumar.

Í tengslum við keppnina safnar Alþjóða Rauði krossinn í samstarfi UEFA fjármagni fyrir fórnarlömb jarðsprengna í Afganistan. Stuðningsmenn liðanna geta farið inn á heimasíðu söfnunarinnar, www.scorefortheredcross.org, og keypt sýndarmörk.

„Fórnarlömb jarðsprengna þurfa staðfestu og mikinn stuðning á vegferð sinni til bata. Ég ber mikla virðingu fyrir þeim og vil styðja þá” segir Ronaldo sem er stoltur af því að vera tilnefndur mannúðarsendiherra Rauða krossins.

Alþjóða Rauði krossinn mun nota söfnunarféð til að útvega fólkinu gervilimi, veita þeim sálrænan stuðning og þjálfun. Nánari upplýsingar á vef Alþjóðaráðs Rauða krossins.