Versnandi ástand í Afganistan

9. apr. 2008

Jakob Kellenberger, forseti Alþjóðaráðs Rauða krossins er um þessar mundir staddur í Afganistan til þess að kynna sér ítarlega ástandið í landinu. „Við höfum mjög miklar áhyggjur af versnandi lífsskilyrðum í Afganistan. Öryggi almennings fer hnignandi og bardagar hafa aukist verulega. Átökin eru ekki lengur bundin við suðurhluta landsins og hafa einnig breiðst út til austurs og vesturs," sagði Kellenberger.

Meðan á ferðinni stendur mun Kellenberger eiga viðræður við Hamid Karzai, forseta Afganistans. Hann mun einnig funda með Rangain Dadfar Spanta utanríkisráðherra landsins, Sayed Mohammad Amin Fatemi heilbrigðisráðherra og Mohammad Qasim Hashimzai varadómsmálaráðherra. Einnig mun hann ræða við Dan McNeill, yfirmann alþjóðlegra öryggissveita (International Security Assistance Force (SAF)) og Jeffrey J. Schloesser, yfirmann 101. herdeildar Bandaríkjahers. Kellenberger mun eiga fund með Fatimu Gailani formanni afganska Rauða hálfmánans til að ræða hvernig betur megi ná til þeirra sem mest þurfa á aðstoð að halda víðs vegar um landið.

Sífellt fleira fólk þarf að flýja heimili sín vegna harðnandi bardaga. Alþjóðaráð Rauða krossins hefur aukið hjálparstarf sitt mikið á undanförnum árum en slæmt öryggisástand kemur oft í veg fyrir að aðstoðin berist þeim sem mest þurfa á henni að halda. Þar á meðal eru þúsundir fjölskyldna sem þurft hafa að flýja heimili sín á bardagasvæðum. Alþjóðaráðið hefur átt viðræður við alla deiluaðila, þar á meðal uppreisnarmenn, um hvernig aðstoða megi þá sem þurfa að þola mestar þjáningar.

„Því miður er ástandið víða mjög slæmt í Afganistan og átökin valda því að æ fleira fólk þarf að flýja heimili sín. Þessir flóttamenn og margir aðrir hópar í landinu búa við mikla neyð og mjög brýnt er að aðstoð berist þeim eins fljótt og auðið er. Afganska þjóðin verðskuldar að fá fullnægjandi heilbrigðisþjónustu, hreint drykkjarvatn nægan mat og búa við viðunandi öryggisástand," sagði Kellenberger jafnframt.

Formaðurinn mun heimsækja Minwais sjúkrahúsið í Kandahar, sem er helsta sjúkrahúsið á átakasvæðunum í sunnanverðu landinu. Alþjóðaráðið á vinnur með heilbrigðisráðuneytinu um að tryggja fullnægjandi sjúkrahúsþjónustu á svæðinu og sjá til þess að særðir fái þá aðstoð sem þeir þurfa á að halda.

Í viðtölum sínum við áhrifamenn mun Kellenberger fjalla um almennt ástandið í landinu auk þess sem sérstök áhersla verður lögð á vernd fanga sem haldið er án þess að réttað sé yfir þeim. Kellenberger mun heimsækja fangabúðir Bandaríkjahers í Bagram (Bagram Temporary Internment Facility (BTIF)), þar sem rúmlega 600 manns eru í haldi. „Mjög mikilvægt er að þeir sem haldið er föngnum í tengslum við baráttuna gegn hryðjuverkum njóti lagalegrar verndar. Við lítum svo á að þörf sé á markvissari reglum um þennan málaflokk hér í Bagram þar sem fangar búa enn við mikla óvissu um framtíð sína," sagði Kellenberger.

Alþjóðaráðið hefur staðið fyrir hjálparstarfi í Afganistan frá árinu 1987. Frá árinu 1989 þegar fyrsti sendifulltrúi Rauða kross Íslands hélt til starfa í Afganistan hefur félagið sent þangað 16 sendifulltrúa í 18 starfsferðir alls. Sendifulltrúar Alþjóðaráðsins heimsækja reglulega fanga í haldi afganskra yfirvalda til að leggja mat á þá meðferð sem þeir fá og til þess að gera þeim kleift að hafa samband við fjölskyldur sínar. Alþjóðaráðið útvegar gervilimi fyrir þá sem misst hafa útlimi og veitir tugum þúsunda fatlaðra aðgang að sjúkraþjálfun. Sérstök áhersla er lögð á að aðstoða fórnarlömb jarðsprengna. Alþjóðaráðið rekur sex miðstöðvar víðs vegar um landið þar sem smíðaðir eru gervilimir á sjúklinga. Alþjóðaráðið styður við rekstur sjúkrahúsa í Kandahar, Jalalabad og Jawzjan og sér fyrir drykkjarvatni og hreinlætisaðstöðu á ýmsum stöðum þar sem fangar eru hafðir í haldi.

Hjálparstarfið í Afganistan er fjórða stærsta verkefni Alþjóðaráðsins með rúmlega 1200 starfsmenn. Fjárhagsáætlun verkefnisins gerir ráð fyrir útgjöldum sem svara til um það bil fjórum milljörðum íslenskra króna (um það bil 60 milljónum svissneskra franka).