Alþjóða Rauði krossinn spáir matvælaskorti í Keníu og Sómalíu

14. apr. 2008

Samkvæmt spám fyrir tímabilið mars til maí 2008, eru auknar líkur á því að úrkoma á austurhorni Afríku (þar á meðal Sómalíu, Keníu, Eþíópíu og austurhluta Tansaníu) verði minni en í meðalári. IGAD stofnunin gefur út spár um veðurfar til lengri tíma á grundvelli upplýsinga um hafstrauma og annarra áhrifaþátta.

Talið er að áhrifin af hafstraumnum La Nina verði mikil á tímabilinu mars til maí á þessu ári og af þeim sökum er búist við meiri þurrkum á austurhorni Afríku heldur en í venjulegu árferði. Yfirborðshiti sjávar meðfram austurströnd Afríku er jafnframt lægri en í meðalári en þesskonar skilyrði hafa að jafnaði í för með sér minni úrkomu á austurhorni Afríku. Samanlögð áhrifin af La Nina og lægri sjávarhita í Indlandshafi auka líkurnar á því að á tímabilinu mars til maí á þessu ári verði loftslag þurrara en í meðalári á þessu svæði.

Alþjóða Rauði krossinn og fjögur landsfélög Rauða krossins á þeim svæðum þar sem mest er hætta á þurrkum (Keníu, Sómalíu, Eþíópíu og Djibútí) vinna nú að því að meta hvaða áhrif þurrkarnir muni hafa á þessu svæði. Alþjóða Rauði krossinn gerir ráð fyrir því að mikil þörf verði á utanaðkomandi matvælaaðstoð í kjölfar þurrkanna.