Aðstoð Rauða krossins skilur á milli lífs og dauða

21. apr. 2008

Mikill skortur er á starfsfólki til að annast regluleg störf á sjúkrahúsum í norðurhluta Sri Lanka og ástandið er víða orðið mjög alvarlegt. Mikið álag er á heilbrigðiskerfið í þessum landshluta og heilbrigðisstofnanir reyna eftir fremsta megni að halda uppi almennum rekstri um leið og þau hlúa að þeim sem særst hafa í stríðsátökum. Sjúkrahús og heilsugæslustöðvar í fjórum nyrstu héruðum landsins fást við tilfinnanlegan skort á lyfjum og öðrum sjúkragögnum. Verkjalyf, sýklalyf og bóluefni eru víða mjög af skornum skammti.

Rauði krossinn styður rekstur sjúkrahúsa í norðurhluta Sri Lanka
Alþjóða Rauði krossinn hefur gert samkomulag við heilbrigðisráðuneyti landsins um að sjá sjúkrahúsum í héruðunum Anuradhapura, Batticaloa, Jaffna, Kilinochchi, Mannar, Mullaitivu og Vavuniya fyrir lækningatækjum og sjúkragögnum til þess að hægt sé sinna þeim sem særast vegna vopnaðra átaka. Einnig útvegaði Alþjóða Rauði krossinn Murankuran sjúkrahúsinu mikilvæg tæki til meðferðar á alvarlegum beinbrotum.

Samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum á að veita særðum og sjúkum og öðrum þeim sem ekki taka þátt í bardögum þá aðhlynningu sem þeir þurfa á að halda eins fljótt og unnt er.

Sjúkraflug Rauða krossins bjargar mannslífum
Íbúar í Jaffna í norðurhluta landsins hafa ekki aðgang að allri nauðsynlegri læknisþjónustu en til að tryggja þeim viðeigandi læknisþjónustu hefur Alþjóða Rauði krossinn séð um flutning sjúklinga með flugi milli Jaffna og Colombo tvisvar í viku. Í mars voru 54 sjúklingar fluttir með sjúkraflugi til Colombo til að hægt væri að gera á þeim erfiðar skurðaðgerðir. Fyrir marga sem særst hafa í átökunum eða veikst alvarlega skilur sjúkraflug Rauða krossins milli lífs og dauða. Margir sjúklingar þurfa á flókinni meðferð að halda sem aðeins er hægt að fá í höfuðborginni Colombo.

Lyf, lækningatæki, bóluefni, starfsfólk sjúkrahúsa og sýni til rannsókna hafa einnig verið flutt með flugvélum Alþjóða Rauða krosssins milli Jaffna og Colombo. Sérstök áhersla hefur verið lögð á flutning þeirra gagna sem nauðsynleg eru til að tryggja heilsu barna og barnshafandi kvenna.

„Bóluefni þarf að geyma og flytja við ákveðið hitastig. Eina leiðin til að koma því til Jaffna óskemmdu er að flytja það með flugi. Hér eru hvorki til bílar eða skip með viðeigandi kælitækjum og vegalengdir eru of miklar," segir Toon Vandenhove, yfirmaður sendinefndar Alþjóða Rauða krossins í Colombo.

Vernd óbreyttra borgara og fólks í varðhaldi í tengslum við átökin
Alþjóða Rauði krossinn fylgist með því hvort fram fari brot á alþjóðlegum mannúðarlögum í landinu. Töluvert er um brot af því tagi gegn almenningi og fólk tilkynnir reglulega um að ættingjar þess hafi horfið eða verið handteknir. Rauði krossinn hefur samskipti við stríðandi fylkingar til að auka vernd fyrir óbreytta borgara og bæta virðingu fyrir alþjóðlegum mannúðarlögum.

Með samvinnu við fulltrúa stjórnvalda og Tamíl tígra hefur Rauði krossinn getað átt samskipti við fjölda óbreyttra borgara sem haldið er föngnum af öryggisástæðum Markmiðið með heimsóknunum er að fylgjast með því að fangar hljóti mannúðlega meðferð og búi við sómasamleg skilyrði. Sendifulltrúar Alþjóða Rauða krossins heimsóttu 730 fanga í nærri 60 heimsóknum í 40 fangabúðir og fangelsi og sáu þeim víða fyrir fötum, hreinlætisvörum og öðrum nauðsynjum.

Rauði krossinn hefur veitt rúmlega 400 fjölskyldum fjárstyrk til að heimsækja ættingja sem eru í haldi yfirvalda af öryggisástæðum. Rúmlega 30 manns sem sleppt var úr haldi fengu fjárstuðning til að komast aftur heim til sín.

Sameining fjölskyldna
Alþjóða Rauði krossinn hefur í samstarfi við landsfélag Rauða krossins á Sri Lanka gert ráðstafanir til að tryggja að meðlimir fjölskyldna sem sundrast hafa vegna ófriðarins í landinu geti haft samband sín á milli. Í mars tók Alþjóða Rauði krossinn við rúmlega 400 skilaboðum frá fjölskyldum í leit að horfnum ástvinum sínum og tókst að koma 230 skilaboðum til réttra viðtakenda.

Rauði kross Íslands
Fjölmargir sendifulltrúar Rauða kross Íslands störfuðu á Sri Lanka í kjölfar flóðbylgjunnar um jólin 2004 og mun félagið halda áfram fjárhagsstaðstoð næstu árin til fórnarlamba hennar og átakanna sem eru í landinu.