Rauði krossinn aðstoðar fórnarlömb fellibyljarins í Mjanmar

5. maí 2008

Alþjóða Rauði krossinn hefur veitt um 14,5 milljónum króna (200 þúsund svissneskra franka) til neyðaraðstoðar í Mjanmar vegna fellibyljarins Nargis sem gekk yfir landið á föstudaginn. Fréttir ríkissjónvarpsins í landinu herma að 22 þúsund séu látnir, 40 þúsund saknað og milljónir hafi misst heimili sín. Talið er að 95% heimila í borginni Bogalay séu gjöreyðilögð. Hættuástandi hefur verið lýst yfir í höfuðborginni Yangon, á svæðunum Irrawaddy, Pegu og ríkjunum Karen og Mon.

Alþjóða Rauði krossinn styður Rauða krossinn í Mjanmar í að veita neyðaraðstoð. Fyrsta aðstoð felst í því að útvega hreint vatn, neyðarskýli, fatnað, plast-yfirbreiðslur og hreinlætisvörur fyrir þá sem hafa misst heimili sín. Neyðarteymi hafa verið send á staðinn til að meta umfang hjálparstarfsins.

Rauði kross Íslands styður hjálparstarfið með því að greiða í neyðarsjóð Alþjóða Rauða krossins en ákvörðun um frekara framlag verður tekin þegar umfang hjálparstarsfins er ljóst og neyðarbeiðni liggur fyrir.