Söfnun Rauða krossins fyrir nauðstadda í Mjanmar fer vel af stað

8. maí 2008

Pokasjóður verslunarinnar afhenti Rauða krossi Íslands í dag fimm milljónir króna til hjálparstarfsins í Mjanmar. Þá hefur þegar safnast um ein milljón króna frá almenningi með framlögum í söfnunarsíma Rauða krossins 907 2020 og á bankareikninginn 1151- 26- 12. Þetta er til viðbótar þeim fimm milljónum króna sem Rauði krossinn hefur veitt úr hjálparsjóði sínum í neyðarbeiðni Alþjóða Rauða krossins.

Bjarni Finnson, formaður Pokasjóðsins, áréttaði við afhendingu framlagsins í dag að það væru í raun viðskiptavinir verslunarinnar sem leggðu til fjármagnið til fórnarlamba fellibylsins í Mjanmar þó stjórn sjóðsins tæki ákvörðun um hvaða málefni væri styrkt hverju sinni.

„Við ákváðum að veita framlagið sem fyrst til Rauða krossins, svo það kæmi að notum við hjálparstarf nú þegar á fyrstu dögunum eftir hamfarirnar,” sagði Bjarni.  „En þetta er ekki síst hugsað sem hvatning til annarra um að gera slíkt hið sama.”

Pokasjóður lagði einnig til 5 milljónir í söfnun Rauða krossins árið 2004 þegar hamfarirnar vegna flóðbylgjunnar miklu urðu í Suður-Asíu .

„Við erum þakklát fyrir góð viðbrögð almennings við söfnun Rauða krossins vegna þessara miklu hamfara í Mjanmar og þetta rausnarlega framlag Pokasjóðs,” segir Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands.

Fyrstu hjálpargögn Alþjóða Rauða krossins hafa nú borist til Mjanmar og er vonast til að næstu sendingar muni berast á morgun og næstu daga. Um 27.000 sjálfboðaliðar Rauða krossins hafa unnið sleitulaust við að dreifa brýnustu nauðsynjum til nauðstaddra síðan fellibylurinn Nargis reið yfir landið fyrir viku.

Þeim sem vilja styðja fórnarlömb fellibylsins er bent á að smella á vefborðann efst á forsíðunni, reikning hjálparsjóðs Rauða krossins í banka 1151, hb. 26, reikning 12, kt. 530269-2649 og söfnunarsímann 907 2020. Við hvert símtal dragast 1.200 kr. frá næsta símreikningi.