Þróunarsamvinnan skilar árangri – en lengi má gott bæta

Kristján Sturluson framkvæmdastjóra Rauða kross Íslands

15. maí 2008

Rauði kross Íslands hefur um árabil sinnt þróunarsamvinnu á ýmsum sviðum. Nú beinast þróunarverkefnin aðallega að því að bæta heilsufar fátæks fólks í sunnanverðri Afríku og að því að styðja börn sem glíma við fátækt eða afleiðingar af vopnuðum átökum. Auk þess er unnið að því að efla og þróa Rauða kross félögin í hverju landi svo að sjálfboðaliðar og starfsfólk þeirra geti tekist á við þau verkefni sem eru brýnust hverju sinni.
 
Fátækt fólk fær heilbrigðisþjónustu
 
Á síðasta ári var t.d. opnuð ný heilsugæslustöð í Mapútó-héraði í Mósambík þar sem um átta þúsund manns fá nú heilbrigðisþjónustu. Rauði krossinn í Mósambík reisti stöðina í samvinnu við Rauða krossinn og Þróunarsamvinnustofnun hér á Íslandi. Íbúar á svæðinu þurftu áður að fara rúmlega 20 km leið eftir læknisaðstoð til næsta þéttbýlis, eftir fáförnum vegum þar sem almenningssamgöngur eru mjög strjálar.

Á heilsugæslustöðinni er fæðingarstofa, aðstaða til almennrar heilsugæslu og til að meðhöndla algengustu sjúkdóma. Þar er m.a. veitt mæðra- og ungbarnavernd, fræðsla og ráðgjöf um barneignir ásamt mótefnamælingum og ráðgjöf fyrir alnæmissmitaða.

Sjálfboðaliðar á vegum mósambíska Rauða krossins starfa í tengslum við heilsugæslustöðina. Þeir fræða íbúana um hvernig megi auka hreinlæti og efla heilsufar, m.a. um hvernig megi forðast að smitast af alnæmi sem er útbreitt í Mósambík.

Börn fá stuðning vegna vopnaðra átaka
Ótti og ofbeldi er hluti af daglegu lífi barna á hernumdu svæðunum í Palestínu. Börn lifa í sífelldum ótta um að foreldrar þeirra og systkini bíði bana, þau þjást af svefntruflunum og ýmsum hegðunarvandamálum.

Rauði kross Íslands sinnir nú þróunarverkefni í samstarfi við systurfélag sitt í Palestínu þar sem unnið er að því að auka velferð barna á átakasvæðunum. Í 35 skólum eru nú skipulagðar samverustundir þar sem 2.700 börn á aldrinum 10 til 12 ára taka þátt í ýmiss konar félagsstarfi. Börnin fá aðstoð við að takast á við þá erfiðu reynslu að alast upp á svæði þar sem er stöðugt spenna í lofti, vopnuð átök og ofbeldi. Þau fá tækifæri til að spjalla um þessa reynslu sína og þær tilfinningar sem henni fylgja. Sérstök dagskrá er skipulögð fyrir yngri börn í sumarfríum og hafa rúmlega 10 þúsund börn notið góðs af henni.

Lengi má gott bæta
Þessi tvö verkefni eru dæmi um þróunarsamvinnu Rauða kross Íslands. Heimamenn vita best hvaða verkefni eru brýnust í eigin landi. Í fátækari ríkjum heims skortir hins vegar oft fjármagn til framkvæmda. Rauði kross Íslands leggur til fé og sérfræðiþekkingu – ef hennar er þörf – en heimamenn sjá um að skipuleggja og framkvæma það sem gera á. Stuðningur Rauða krossins hér heima beinist bæði að ákveðnum verkefnum en einnig að því að gera systurfélögin  sterkari, t.d. með því að efla fjáröflun þeirra. 

Að ýmsu leyti hefur þróunarsamstarf Rauða krossins verið til fyrirmyndar. Samt má alltaf bæta það. Þess vegna boðar Rauði kross Íslands til ráðstefnu sunnudaginn 18. maí nk. þar sem rætt verður um hvernig megi bæta þróunarsamvinnu félagsins. Á ráðstefnunni mun Fernanda Teixeira, framkvæmdastjóri Rauða krossins í Mósambík, skýra frá reynslu sinni af samstarfi við Rauða kross Íslands. Auk þess flytja sjálfboðaliðar og starfsfólk Rauða krossins erindi um sína reynslu af þróunarsamstarfi innan Rauða kross hreyfingarinnar. Ráðstefnan, sem verður haldin í Salnum í Kópavogi, er öllum opin.