Hvernig má bæta þróunarsamvinnu?

Ómar H. Kristmundsson formann Rauða kross Íslands

15. maí 2008

Í hugum flestra er hinn dæmigerði starfsmaður Rauða krossins sá sem birtist á sjóvarpsskjánum þegar náttúruhamfarir verða úti í heimi eða þegar stríð geisa.

Hitt vita sennilega færri að Rauði krossinn hér heima og annars staðar í heiminum vinnur að fjölmörgum verkefnum á sviði þróunarsamvinnu. Þar eru heimamenn alltaf í aðalhlutverki því að í nánast öllum löndum heims eru starfandi Rauða kross félög.
 
Heimamenn í lykilhlutverki
Sjálfboðaliðar og starfsfólk Rauða kross félagsins í hverju landi meta hvaða verkefni er brýnast að sé sinnt – síðan leita þeir eftir stuðningi hjá öðrum Rauða kross félögum sem hafa fé aflögu. 

Þegar alnæmisfaraldurinn braust út í sunnanverðri Afríku, fóru sjálfboðaliðar og starfsfólk Rauða krossins í Malaví um landið til að meta ástandið og ræddu síðan hvaða leiðir væru færar til að aðstoða þá sem voru veikir. Hið opinbera heilbrigðiskerfi annaði augljóslega ekki svo risavöxnu verkefni og því var ákveðið að koma á heimahlynningu þar sem sjálfboðaliðar myndu styðja og aðstoða fólk sem var smitað og auk þess sinna forvörnum og fræðslu um sjúkdóminn. Forsvarsmenn malavíska Rauða krossins leituðu síðan til Rauða kross Íslands og báðu um fjárstuðning og einnig aðstoð við að koma starfinu af stað. 

Að sjálfsögðu er þetta ekki alltaf svona einfalt. Sum Rauða kross félög, t.d. á hinum Norðurlöndunum, fá mest af fjármagni sínu frá ríkinu og því fylgja oft ýmis skilyrði. Stundum má einungis nota féð til að borga fyrir ákveðnar vörur eða sett eru skilyrði um að öllu fénu eigi að eyða innan eins árs eða tveggja. Hreyfingin hér á landi er ekki háð slíkum skilyrðum og því á félagið auðveldara með að koma til móts við þarfir samstarfsaðila sinna, t.d. eins og Rauða krossins í Malaví.

Hvernig má bæta þróunarsamstarfið? 
Rauði kross Íslands er nú í beinu þróunarsamstarfi við fimm systurfélög sín í Afríku, þ.e. í Gambíu, Malaví, Mósambík, Síerra Leóne og Suður-Afríku. Samstarfið beinist aðallega að því að bæta heilsufar fólks sem býr við fátækt og einnig að því að aðstoða börn sem þjást vegna fátæktar eða vopnaðra átaka. Auk þess er samstarf við Palestínska Rauða hálfmánann um að veita börnum stuðning sem líða vegna stöðugra átaka á landssvæðum Palestínumanna.

 Rauði krossinn vill haga samstarfi sínu við systurfélög sín þannig að sé til fyrirmyndar. Þess vegna hefur verið ákveðið að halda ráðstefnu um þróunarsamstarf Rauða kross Íslands sunnudaginn 18. maí nk. Þar flytur m.a. Fernanda Teixeira, framkvæmdastjóri mósambíska Rauða krossins, erindi um reynslu sína af samstarfi við íslenska Rauða krossinn. Starfsfólk og sjálfboðaliðar Rauða krossins munu einnig segja frá reynslu sinni af þróunarsamstarfi innan Rauða kross hreyfingarinnar.

Við, sem störfum innan Rauða kross Íslands, teljum að þróunarsamstarf félagsins geti orðið fyrirmynd annarra sem  starfa á sama vettvangi. Hins vegar teljum við að mikilvægt sé að bæta það enn frekar og þess vegna viljum við ræða á opinskáan hátt um kosti þess og galla. Ráðstefnunni 18. maí nk. er ætlað að vera skref í þá átt. Hún verður haldin í Salnum í Kópavogi og er öllum opin.