Framkvæmdastjóri Rauða krossins í Mósambík á málefnaþingi um þróunarsamvinnu

16. maí 2008

Fernanda Teixeira, framkvæmdastjóri Rauða krossins í Mósambík, flytur framsöguerindi um samstarf Rauða kross hreyfingarinnar á málefnaþingi Rauða kross Íslands um þróunarsamvinnu sem haldið er sunnudaginn 18. maí.

Fernanda hefur unnið í rúm 20 ár með Rauða krossinum. Hún varð framkvæmdastjóri Rauða krossins í Mósambík árið 1998. Fernanda stýrði því alþjóðlegum neyðaraðgerðum í miklum flóðum sem urðu árið 2000 þegar 4,5 milljónir (27% þjóðarinnar) urðu að flýja heimili sín. Rauði krossinn veitti neyðarstoð vegna flóða einnig árin 2001, 2007 og 2008, og aðstoðuðu þúsundir manna vegna þurrka sem leiddu til mikillar neyðar í landinu 2002-2003 og 2005-2006.

Rauði krossinn í Mósambík hefur því mikla reynslu í neyðarviðbrögðum og forvörnum gegn afleiðingum hamfara og vinnur ásamt yfirvöldum að neyðarvörnum í landinu ásamt fjölmörgum samfélagsverkefnum á sviði heilbrigðismála og umönnun barna.

Líkt og í öðrum löndum sunnanverðrar Afríku hefur alnæmisfaraldurinn sett mikið mark á samfélagið í Mósambík. Rúm 16% þjóðarinnar eru smitaðir (íbúar Mósambík eru 21 milljón) og eru alnæmiverkefni og önnur heilbrigðisverkefni því veigamikill hluti af starfi félagsins.

Samstarf Rauði krossins í Mósambík við Rauða kross Íslands á sviði þróunarsamvinnu hefur varað frá árinu 1999. Félögin hafa unnið með stuðningi Þróunarsamvinnustofnunar Íslands að heilsugæsluverkefni í Mapútohéraði. Tvær heilsugæslustöðvar hafa verið reistar á svæðinu sem alls þjóna um 20.000 manns.

Málefnaþing Rauða kross Íslands um þróunarsamvinnu er haldið í Salnum í Kópavogi sunnudaginn 18. maí og hefst kl. 10. Málefnaþingið er öllum opið og eru áhugamenn um íslenska þróunarsamvinnu hvattir til að mæta.