Rauði krossinn hvetur til banns við klasasprengjum

19. maí 2008

Alþjóðaráð Rauða krossins hvetur þjóðir heims til að ganga frá nýjum samningi um bann við klasasprengjum. Klasasprengjur valda almenningi miklu tjóni og þjáningum og eru þjóðir heims eru hvattar til að bregðast af ákveðni við þeim hörmungum sem af þessum vopnum stafa.

Dagana 19. til 30. maí koma opinberir fulltrúar rúmlega 100 þjóða saman á ráðstefnu í Dyflinni. Þessi ráðstefna er framhald af átaki sem hófst í Ósló í febrúar 2007 og hefur það að markmiði að draga úr eða koma í veg fyrir notkun klasasprengna.

„Klasasprengjur eru vopn sem aldrei hætta að drepa,“ segir Jakob Kellenberger, forseti Alþjóðaráðs Rauða krossins en hann hélta ræðu við upphaf ráðstefnunnar. „Alþjóðaráðið aðstoðar fórnarlömb styrjalda um allan heim og hefur orðið vitni að skelfilegum áhrifum þessara vopna á almenning. Það er mikilvægt að þjóðir heims gangi frá samkomulagi sem kemur í veg fyrir að klasasprengjur séu notaðar með ómarkvissum og ónákvæmum hætti. Einnig er brýnt að gerðar séu ráðstafanir til að hreinsa sprengjur af svæðum þar sem þeim hefur verið dreift og tryggja aðstoð fyrir fórnarlömb þeirra.“

Sumar klasasprengjur dreifa allt að 650 smærri sprengjum um rúmlega 30.000 fermetra svæði. Klasasprengjur eru mjög ónákvæmar og oft springa smásprengjurnar ekki við lendingu eins og þeim hefur verið ætlað að gera. Af þessum völdum má finna landsvæði í meira en 20 löndum sem eru jafn hættuleg og jarðsprengjusvæði. Sprengjurnar eru oft virkar í marga áratugi og geta valdið manntjóni mörgum kynslóðum eftir að þeim var dreift. Í Laos, þar sem ástandið er hvað alvarlegast, er áætlað að um 270 milljónum smásprengna hafi verið dreift með klasasprengjum á sjöunda og áttunda áratugnum. Tugir milljóna virkra sprengna liggja enn í jörðu og valda árlega miklu manntjóni.

Ef ekki er strax gripið til alþjóðlegra aðgerða gætu klasasprengjur valdið meira manntjóni en jarðsprengjur í framtíðinni. Milljarðar smásprengna sem dreift er með klasasprengjum eru enn í vopnabúrum fjölmargra ríkja. Margar þeirra eru af eldri gerðum og eru bæði ónákvæmar og óáreiðanlegar. Ólíkt jarðsprengjum sem flestir herir eiga í vopnabúrum sínum þá eiga aðeins um 75 þjóðríki klasasprengjur. Jarðsprengjur nú verið bannaðar í 156 þjóðríkjum en þær eru samt sem áður mjög útbreiddar.

„Við höfum tækifæri til að koma í veg fyrir gríðarlegar mannlegar þjáningar,“ sagði Kellenberger. „Þetta tækifæri þurfa þjóðir heims að grípa og gera það sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir að enn fleirri óbreyttir borgarar látist eða slasist af völdum klasasprengna í framtíðinni.“