Ísland getur orðið góð fyrirmynd

Guðmund Sverri Þór blaðamann á Morgunblaðinu

19. maí 2008

Framkvæmdastjóri Rauða krossins í Mósambík segir stuðning Rauða kross Íslands við félagið hafa komið sér vel . Um 70% íbúa landsins lifa undir fátæktarmörkum. Viðtal við Fernöndu Teixeira birtist í Morgunblaðinu 19. maí.

ÉG TEL Ísland geta orðið mjög góða fyrirmynd fyrir íbúa Mósambík. Ég hef heimsótt Ísland tvisvar og dáist að því hvernig þið hafið tekist á við erfiðar aðstæður, landfræðilega, án þess að vera mjög fjölmenn þjóð. Þið notið auðlindir ykkar vel og finnið ýmsar lausnir sem gera þjóðinni kleift að þróast. Slíkt getur verið öðrum þjóðum gott fordæmi,“ segir Fernanda Teixeira, framkvæmdastjóri Rauða krossins í Mósambík, sem í gær flutti erindi um samstarf Rauða kross hreyfingarinnar á málefnaþingi Rauðakross Íslands.

70% undir fátæktarmörkum
Hún segir aðstoð Rauða kross Íslands við landsfélagið í Mósambík hafa komið sér mjög vel. „Við vinnum saman að þróunarverkefnum í tveimur byggðarlögum þar sem reist hefur verið heilbrigðisaðstaða en við vinnum einnig saman að stuðningi við börn sem hafa orðið fyrir áhrifum af HIV, hafa annað hvort smitast sjálf eða misst foreldra sína vegna sjúkdómsins. Aðstoðin byggist einnig á því að byggja upp þekkingu og getu hjá starfsmönnum okkar í hverju byggðarlagi fyrir sig þannig að þegar samvinnuverkefnunum lýkur á hverjum stað geti okkar fólk haldið áfram starfinu. Slíkt er mjög mikilvægt og samstarf okkar við RKÍ hefur komið sér mjög vel.“

Teixeira segir Rauða krossinn í Mósambík vera frekar ungt félag, stofnað árið 1981. „Allt frá stofnun höfum við unnið við mjög erfiðar aðstæður, fyrst stríð og síðan hafa margoft riðið alvarlegar náttúruhamfarir yfir landið. Þótt vissulega séu þetta slæmar aðstæður hafa þær hins vegar orðið til þess að þróa hratt getu okkar til þess að takast á við erfiðar aðstæður. Hjá okkur starfa um 300 manns og við höfum yfir að ráða meira en 6 þúsund sjálfboðaliðum. Aðalstarfssvið okkar eru hamfarir, svo sem viðbrögð við hamförum og aðgerðastjórnun en jafnframt reynum við að fyrirbyggja afleiðingar hamfara. HIV og alnæmi eru einnig ofarlega á baugi hjá okkur og í þeirri vinnu notum við heildarkerfisnálgun. Þá vinnum við mikið að öðrum heilbrigðismálum, t.d. hvað varðar hreinlætismál og aðgengi að vatni, og umönnun. Ennfremur eru fátækt og menntun mjög mikilvæg verkefni,“ segir Teixeira en að hennar sögn lifa um 70% mósambísku þjóðarinnar undir fátæktarmörkum þótt vissulega hafi staðan þó batnað á undanförnum árum þar sem miklar efnahagsframfarir hafa orðið.

Marga skortir mat og vatn
„Hagvöxtur á ári er um 8% en fátækt er enn mjög mikil og ljóst er að það mun taka mörg ár að leysa þau vandamál. Samkvæmt lífsgæðavísitölu Sameinuðu þjóðanna er Mósambík eitt fátækasta ríki heims og það þarf að huga að mörgu. Reisa þarf sjúkrahús og heilsugæslustöðvar og menntastofnanir auk þess sem meirihluta þjóðarinnar skortir mat og hreintvatn. Árlega verða í landinu náttúruhamfarir, svo sem flóð, þurrkar og fellibyljir, sem halda aftur af þróun landsins,“ segir Fernanda Teixeira.