Þróunarsamvinna krufin til mergjar

21. maí 2008

„Samstarf Rauða kross félaganna á Íslandi og í Mósambík hefur verið gagnlegt og ánægjulegt,” sagði Fernanda Teixeira á málefnaþingi um þróunarsamvinnu sem Rauði kross Íslands hélt um síðustu helgi. Fernanda kynnti staðlaða mælikvarða sem útbúnir hafa verið til þess að meta slíkt samstarf og notaði þá síðan til að meta samstarf Rauða kross félaganna tveggja. Fram kom að í aðalatriðum hefði samstarfið gengið vel en það væri samt ekki hnökralaust. 

Á málefnaþinginu var fjallað vítt og breitt um þróunarsamvinnu félagsins. Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri félagsins, rakti söguna frá því að þróunarsamvinna félagsins hófst og einnig voru flutt erindi um störf sendifulltrúa sem sinna þróunarsamvinnu og um samstarf deilda hér heima við deildir erlendis.

Í máli Helgu Þórólfsdóttur, sviðsstjóra hjá Rauða krossinum, kom fram að bæta þyrfti samvinnu vegna þess hún mótaðist um of af því að fólk í fátækum löndum væri í hlutverki þiggjenda en við á Vesturlöndum í hlutverki gefenda. Þessu þyrfti að breyta með því að auka traust og virðingu í samskiptum þessara aðila og finna leiðir til að þeir geti lært meira hvor af öðrum.

Einnig var rætt um ýmsar hliðar þróunarsamvinnu í minni hópum og í hléi gafst fundarmönnum færi á að kaupa margvíslegan og litríkan varning frá Gambíu og Mósambík.