Bekele Geleta nýr framkvæmdastjóri Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans

26. maí 2008

Bekele Geleta yfirmaður alþjóðaskrifstofu kanadíska Rauða krossins hefur verið ráðinn í stöðu framkvæmdastjóra Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans. Markku Niskala lætur af störfum eftir langan og árangursríkan feril. Bekele Geleta fæddist í Eþíópíu 1. júlí 1944 og lauk meistaraprófi í hagfræði frá Leeds háskóla á Bretlandi.

„Ég hef þá ánægju að tilkynna að stjórn Alþjóðasambandsins hefur skipað Bekele Geleta í stöðu framkvæmdastjóra,“ sagði Juan Manuel Suarez del Toro forseti Alþjóðasambandsins í bréfi sínu til allra landsfélaga, sendinefnda og starfsmanna Rauða krossins og Rauða hálfmánans þann 21. maí.

Geleta var áður yfirmaður fransk-eþíópska lestarfélagsins, þróunarstjóri hjá Irish Concern International og stýrði verkefnum Care Canada í Keníu og Sómalíu. Hann var um tíma sendiherra Eþíópíu í Japan og gegndi einnig embætti vararáðherra fjarskipta og samgöngumála.

Geleta var framkvæmdastjóri eþíópska Rauða krossins á árunum 1984-1988, en það var eitt af erfiðustu tímabilunum í sögu Afríku. Frá 1996 til 2007 var Geleta yfirmaður Afríkudeildar Alþjóðasambandsins í Genf, fulltrúi sendinefndar Alþjóðasambandsins hjá Sameinuðu þjóðunum í New York og yfirmaður svæðisskrifstofu Alþjóðasambandsins í Bangkok á Tælandi.

Geleta var síðast yfirmaður alþjóðaskrifstofu í höfuðstöðvum kanadíska Rauða krossins í Ottawa.

„Ég óska hinum nýja framkvæmdastjóra velgengni í nýju starfi,“ sagði Suarez Del Toro. „Einnig vil ég þakka Markku Niskala, fráfarandi framkvæmdastjóra fyrir það mikla starf sem hann hefur unnið í þágu Alþjóðasambandsins og fyrir leiðtogahlutverk hans á tímum mikilla vandamála í mannúðarmálum.“