Innikróaðir í eyðimörkinni

Auðunn Arnórsson blaðamann á Fréttablaðinu

28. maí 2008

Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að bjóða allt að 30 manna hópi palestínskra flóttamanna hæli hér á landi, einstæðum mæðrum og börnum þeirra sem dvelja í flóttamannabúðum í Írak. Auðunn Arnórsson skrifar um ástandið í búðunum. Greinin birtist í Fréttablaðinu 17. maí.

Þessir flóttamenn hafa frá því í desember síðastliðnum dvalið í hinum svonefndu Al-Waleed-flóttamannabúðum, sem eru nærri landamærum Íraks að Sýrlandi. Í frétt á vef Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNHCR, lýsir stofnunin miklum áhyggjum af þeim aðstæðum sem fólkið í búðunum býr við.

„Við erum einkum og sér í lagi áhyggjufull yfir skortinum á læknisaðstoð,” er þar haft eftir Jennifer Pagonis, talsmanni UNHCR í Genf.“ Margir af þeim 942 manns sem í búðunum dvelja hafa brýna þörf fyrir læknisaðstoð, þar á meðal móðir sjö barna sem þjáist af hvítblæði og sykursjúkur unglingspiltur," segir hún.

Hættulega bágar aðstæður
Sendinefnd á vegum UNHCR fór í heimsókn í Al-Waleed-búðirnar síðastliðinn sunnudag til að kynna sér aðstæður þar og meta þarfir flóttamannanna. Þeir fengu staðfest að Palestínumennirnir þar, sem hröktust þangað undan ofsóknum í írösku höfuðborginni Bagdad, lifðu við hættulega bágan kost.

Nefndin komst að því að búðirnar, sem eru tjaldbúðir reistar í Anbar-eyðimörkinni, eru yfirfullar af fólki og margir sem þar dvelja þjást af öndunarfærasjúkdómum og öðrum kvillum sem þarfnast viðeigandi meðferðar. En næsta heilsugæslustöð í Írak er í fjögurra akstursstunda fjarlægð og vegurinn liggur um hættuleg svæði þar sem árásir og tilræði hafa verið tíð. Frá því búðirnar voru opnaðar í lok síðasta árs hafa að minnsta kosti þrír af flóttamönnunum dáið úr sjúkdómum sem auðveldlega hefði verið hægt að lækna, þar á meðal hálfs árs gamalt barn.

Hjálparstarfsmenn fjarri
Alþjóðlegum hjálparstofnunum er ekki leyft að vera með varanlega viðveru í búðunum af öryggisástæðum. Liðsmenn slíkra stofnana geta því aðeins farið í stakar heimsóknir þangað að degi til, að jafnaði frá Sýrlandi. Alþjóða Rauði krossinn hefur lagt búðunum til tjöld, vatn og annan búnað.

Vegna viðvarandi ofsókna sem Palestínumenn í Bagdad sæta er búist við að straumur flóttamanna í búðirnar muni halda áfram. Minnst 1.400 Palestínumenn eru taldir hafast við í Al-Waleed og fleiri flóttamannabúðum við landamærin að Sýrlandi, í von um að komast yfir þau einn góðan veðurdag. Stjórnvöld í Sýrlandi telja sig þegar eiga nóg með þau hundruð þúsunda íraskra og palestínskra flóttamanna sem þegar eru í landinu og hleypa ekki öðrum yfir landamærin að svo stöddu nema þeim sem hafa gild vegabréf og nægt fé til að framfleyta sér.

Auk Al-Waleed eru eldri búðir með hundruðum palestínskra flóttamanna þarna við landamærin. Þær nefnast Al-Tanf, en sérstaða þeirra er sú að þær eru á "einskismannslandinu" á milli landamæra Íraks og Sýrlands. Þeir sem þar dvelja hafa yfirgefið Írak en ekki fengið að fara inn í Sýrland. Þangað er ekki fleiri flóttamönnum hleypt. Því liggur straumur hinna ofsóttu Palestínumanna frá Bagdad til Al-Waleed.

Ofsóttir gestaverkamenn
Talið er að um 34.000 Palestínumenn hafi dvalið og starfað í Írak árið 2003, þegar innrás Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra hófst. Þetta fólk er margt fætt í byggðum þeim sem palestínskir flóttamenn hafa búið í frá því árið 1948 í löndunum í kringum Palestínu. Til Íraks fór það flest sem „gestaverkamenn” í stjórnartíð Saddams Hussein. Síðan stjórn Saddams féll hefur fólk úr þeirra hópi æ oftar orðið fyrir árásum, mannránum, nauðgunum og morðum.

„Heimili Palestínumanna í Írak hafa orðið stöðug skotmörk sprengjuárása, mannrána, misþyrminga, hótana, pyntinga og drápa. Það eru ekki til neinar áreiðanlegar tölur yfir mannfall frá því árið 2003, en UNHCR telur að nokkur hundruð Palestínumanna hafi beðið bana í þessum ofsóknum,” hefur fréttavefur Al Jazeera-sjónvarpsstöðvarinnar eftir Anitu Raman, talsmanni flóttamannafulltrúa Sameinuðu þjóðanna, Antonio Guterres. Hann er yfirmaður UNHCR.

Hjálparstofnanir SÞ giska á að um 19.000 Palestínumenn hafi flúið Írak. Alls er talið að yfir fjórar milljónir íbúa Íraks hafi flosnað upp frá heimilum sínum vegna átakanna í landinu og séu ýmist á vergangi innan Íraks eða hafi flúið land.

Ísland svarar kalli UNHCR
Aðstæður í búðunum eru sagðar eiga eftir að versna yfir sumarmánuðina. Nú strax í maí hafa komið dagar þar sem hitinn fór yfir 50 gráður. Rottur, snákar og sporðdrekar eru tíðir gestir tjaldbúa. Sandstormar eru líka vá sem vofir stöðugt yfir. Þetta veldur því að Flóttamannahjálpin er að reyna sitt bezta til að finna flóttafólkinu hæli einhvers staðar. Í frétt Al Jazeera segir að enn sem komið er hafi ekkert land lýst sig reiðubúið til þess. En nú liggur það sem sagt fyrir að Ísland mun taka við einstæðum mæðrum úr hópi þeirra. Einnig hefur heyrzt aðstjórnvöld í Chile hyggist taka á móti hópi fólks úr búðunum.

Í fréttatilkynningu ríkisstjórar Íslands um ákvörðunina um að taka við flóttafólkinu segir að aðstæður þess verði nákvæmlega kannaðar og að því loknu muni sendinefnd með fulltrúum flóttamannanefndar og fulltrúa Útlendingastofnunar halda til Al-Saleed búðanna og taka viðtöl við fólkið.

Í undirbúningi er að hópurinn sem komi til Íslands fái hæli á Akranesi. Bæjarstjórnin hefur þegar samþykkt bráðabirgðaerindi frá flóttamannanefnd um að taka á móti hópnum.