Hjálparstarf Rauða krossins í Mjanmar og Kína mun taka nokkur ár

29. maí 2008

Viðbrögð við neyðarbeiðnum Alþjóða Rauða krossins í kjölfar hamfaranna í Mjanmar og Kína á liðnum vikum hafa verið sterk. Rauði krossinn væntir þess að neyðarverkefni og uppbyggingarstarf samtakanna í þessum löndum verði að fullu fjármögnuð fyrir framlög landsfélaga Rauða krossins, ríkisstjórna og almennings.

Alþjóða Rauði krossinn sendi út endurskoðaða neyðarbeiðni fyrir Mjanmar sem hljóðar upp á 3,7 milljarða íslenskra króna (51 milljón bandaríkjadollara) til að aðstoða 100.000 fjölskyldur (um 500.000 manns) í þrjú ár. Fyrstu vikur og mánuði er lögð áhersla á að veita nauðstöddum brýna neyðaraðstoð, verja þá gegn útbreiðslu ýmissa sjúkdóma og að koma yfir þá skjólshúsi. Síðan tekur við uppbygging á hamfarasvæðinu.

Loftbrú með hjálpargögn Rauða krossins milli Mjanmar og Kuala Lumpur var komið á viku eftir að fellibylurinn Nargis reið yfir landið og hafa um 27.000 sjálfboðaliðar Rauða krossins í Mjanmar þegar dreift um 500 tonnum af neyðargögnum. Það hefur reynst erfitt að komast til afskekktra byggða, en Rauði krossinn vinnur að því að ná til allra skjólstæðinga sinna á næstu dögum.

Um fimm milljón manns misstu heimili sín í jarðskjálftunum miklu í Sichuanhéraði í Kína. Alþjóða Rauði krossinn mun á næstu vikum dreifa um 100.000 tjöldum á skjálftasvæðunum þar sem þörfin fyrir neyðarskýli er gríðarleg. Rauði krossinn mun að öllum líkindum einnig aðstoða við byggingu bráðabirgðahúsnæðis fyrir fjölskyldur þar til uppbygging á hamfarasvæðunum getur átt sér stað.

Rauði krossinn í Kína hefur unnið þrekvirki á undanförnum þremur vikum. Rúmlega 35.000 sjálfboðaliðar og starfsmenn hafa tekið þátt í björgun og neyðaraðstoð, svo sem skyndihjálp og heilsugæslu, dreifingu á tjöldum, matvælum, vatni og fatnaði auk þess að veita fórnarlamba jarðskjálftanna sálrænan stuðning.

Alþjóða Rauði krossinn vinnur nú að því að endurskoða neyðarbeiðni sína sem hljóðaði upp á 1.5 milljarða íslenskra króna, til aðstoðar um 100.000 manns í eitt ár.  Aðstæður á jarðskjálftasvæðunum breytast stöðugt vegna eftirskjálfta og hættunnar á að stíflur bresti og valdi enn meira tjóni.

Rauði kross Íslands sendi strax 10 milljónir íslenskra króna til neyðaraðstoðarinnar í Mjanmar. Þá veitti utanríkisráðuneytið einnig um 7,5 milljón króna framlag í neyðaraðstoð. Enn er hægt að veita stuðning fyrir hjálparstarfið í Mjanmar með því að fara inn á vefsíðuna raudikrossinn.is,  greiða inn á reikning 1151-26-12 kt. 530269-2649, eða hringja í söfnunarsímann 907 2020 en þá dragast frá 1.200 kr. frá næsta símreikningi. Rauði kross Íslands mun leggja fram meira fé á næstu vikum til uppbyggingarstarfa í Mjanmar.

Rauði krossinn í Kína hefur safnað um 37 milljörðum króna sem notaðar verða í uppbyggingu á hamfarasvæðunum. Ríkisstjórn Íslands veitti um 7.5 milljónum króna til Rauða kross Íslands vegna hjálparstarfsins í Kína. Þór Daníelsson, sendifulltrúi Rauða kross Íslands og yfirmaður landsskrifstofu Alþjóða Rauða krossins í Mongólíu, var kallaður til að aðstoða við neyðaraðgerðirnar í Kína, en hann hefur nú snúið aftur til skyldustarfa sinna.

Á vefsíðu Alþjóða Rauða krossins eru myndir frá hamfarasvæðunum.